131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:10]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta tilraun hans til að ala upp þingmenn Framsóknarflokksins og lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum til að það verk megi vel takast, enda heyrðist mér á síðasta hv. ræðumanni að ekki væri vanþörf á.

Hverjar eru staðreyndirnar í málinu? Þær eru þessar: Á næsta ári á að lækka tekjuskatt um 1% og það kostar 4 milljarða. Samfylkingin vill nota þessa 4 milljarða til að lækka matarskattinn um helming. Það þýðir að útgjöld ríkisins munu aukast um nákvæmlega 4 milljarða en matarkostnaður íslenskra heimila mun minnka um 5 milljarða. Á þessu þingi eru allir flokkar með þessu nema einn, Framsóknarflokkurinn. (Gripið fram í: Rangt.) Það hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins að það er Framsóknarflokkurinn sem kemur í veg fyrir þetta. Hann er eini flokkurinn sem hefur legið þver gegn lækkun matarskattsins. Ég veit að það er sárt fyrir hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur en veruleikinn er oft grimmur.