131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:59]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um afstöðu mína til launa skúringakonunnar, hvenær hún færi að hagnast. (GAK: Þú nefndir það sérstaklega) Ég nefndi það, já. Málið er að ég vil að hún geti bætt laun sín og geti orðið verkstjóri, geti farið í nám og orðið verkfræðingur. Ég vil að henni sé það ekki bannað með skattkerfinu og bótakerfinu, þ.e. að skerðingar á húsaleigubótum, á barnabótum, á vaxtabótum og prósentan í staðgreiðslunni komi ekki í veg fyrir það að konan geti bætt sína stöðu, eða karlinn ef þetta er skúringakarl.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðuna hans til sjómanna. Nú eru sjómenn, vegna starfs síns, yfirleitt með mjög góðar tekjur. Þeir eru fjarri heimili sínu og eru vel að tekjum sínum komnir. (GAK: 2,7 millj. kr. að meðtaltali.) Já, þeir eru með mjög góðar tekjur og sumir hverjir verulega góðar tekjur, sérstaklega á skuttogurunum. Spurning mín er þessi: Getur verið að hv. þingmaður vilji að sjómenn haldi áfram að borga rífandi háa skatta?

Svo langar mig líka að spyrja hann, varðandi eignarskattinn sem er myndaður með sparnaði á tekjum sem búið er að borga tekjuskatt af: Finnst honum eðlilegt að vinna á móti sparnaði með því að skattleggja eignir? Hv. þingmaður talaði um stóreignaskatt og sagði að fróðlegt yrði að vita hverjir mundu greiða stóreignaskatt, komnir yfir 40 millj. kr. eignamörk. Getur verið að glitti í öfund þarna? Mér sýnist að það mundi ekki gefa ríkissjóði neinar tekjur, ekkert sem munar um. Ég skil ekki þá afstöðu að vilja leggja á skatt bara til að sjá hverjir muni borga, ef hann gefur ríkissjóði nánast engar tekjur. Spurning mín er: Mun hann styðja þetta frumvarp yfirleitt, t.d. lækkun á skattprósentunni, niðurfellingu eignarskatts og hækkun barnabóta?