131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:22]

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér er nokkuð brugðið við ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég var að lesa yfir ræðu mína áðan sem ég hélt í síðustu viku um skattamál. Ég gat eiginlega ekki stautað mig í gegnum ræðuna án þess að ég rækist í hverri einustu málsgrein á „gripið fram í“ og svo eru þar ákveðnir þingmenn stjórnarandstöðunnar nefndir, m.a. ágætur félagi minn Guðjón Arnar Kristjánsson. Ég kvarta ekki yfir því. Þar er einnig ágætur félagi minn á þingi Jóhanna Sigurðardóttir og ágætur félagi minn Össur Skarphéðinsson og fleiri.

Mér finnst þetta koma úr hörðustu átt þar sem ég hef ítrekað þurft að gera hlé á ræðum mínum. Þingmenn hafa m.a. staðið fyrir framan ræðupúltið og haldið aðrar ræður yfir mér þótt ég væri í ræðustól. Ég greip fram í og kryddaði örlítið ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ég hef fulla trú á að hafi haft gaman af enda varð ég ekki var við annað. Ég á mjög erfitt með að skilja þetta vegna þess að við hv. þingmenn stjórnarflokkanna höfum sýnt háttvísi í salnum og sparað mjög frammíköll.

En stundum viljum við fá að vita eitthvað nánar. Hv. þingmaður vitnaði í grein og ég spurði hver hefði verið höfundur greinarinnar. Ég fékk reyndar ekki svar við því. Stundum þurfum við að fá svar til að skýra umræðuna svo að ekki þurfi andsvar til að skýra það allt saman. Ég held að ef við tækjum það fyrir í forsætisnefnd þingsins, færum yfir það hvort hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eða stjórnarliðsins gripu meira fram í fyrir ræðumönnum þá er ég viss um að stjórnarandstaðan, með fullri virðingu fyrir henni, hefði vinninginn í þeim efnum.