131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:25]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Svo mál böl bæta að benda á annað verra. Það má einu gilda hvort einhverjum hv. þingmanni þyki skemmtilegt eða skondið að kallað sé fram í ræðu hans eða hennar. Það má einu gilda. Um það snýst ekki aðfinnsla mín í dag heldur þykir mér munur á því hvernig komið er fram við hv. þingmenn.

Mér þykir ekki bragur að því að hér sé ekki á hreinu hjá hv. forsætisnefnd hvernig skuli stjórna þingfundum. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég sé engan mun á þingmönnum eftir flokkum í þeim efnum. Um það snýst ekki málið. Málið snýst um virðingu hins háa Alþingis, um stjórn þess og hvort við sem hér störfum viljum koma þannig fram hvert við annað, hvar í flokki sem við stöndum, að sómi sé að.