131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:28]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um skattamálin. Reyndin er sú að það er svigrúm til skattalækkana, m.a. út af þeim umsvifum sem eru í efnahagslífinu. Þau tengjast að verulegu leyti stóriðjuframkvæmdum sem nú eru í gangi fyrir austan, sem Samfylkingin átti bágt með að styðja á sínum tíma og studdi ekki Kyoto-bókunina, ég vil draga það fram, sem var m.a. forsendan fyrir þeim framkvæmdum.

Hér kom hv. þingmaður hvítþvegin og hafði litla fortíð, heyrðist mér, miðað við ræðu hennar en ég vil minna á, í sambandi við barnabæturnar, að þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var við stjórnvölinn voru barnabætur tekjutengdar og skerðingarnar miklu meiri en við sjáum í dag. Ef ég man rétt voru skerðingarnar á barnabótunum í kringum 18% með þremur börnum. Við bættust 4% með hverju barni umfram það. Hins vegar gerum við ráð fyrir því í skattafrumvörpum okkar að tekjuskerðingin geti aldrei orðið meiri en 8%. Tekjuskerðingin er því minnkuð mjög mikið. Á sama tíma hækka barnabæturnar um marga milljarða. Við erum búin að hækka barnabæturnar um 4,5 milljarða kr. nú þegar frá árinu 2000, sem jafngildir tvöföldun. Það á að hækka barnabæturnar um 2,4 milljarða því til viðbótar með þeim skattafrumvörpum sem hér eru til umræðu.

Það kemur úr hörðustu átt að gagnrýna þá tekjuskerðingar sem verður. Það er verið að minnka hana stórfenglega og hún hefur minnkað mikið frá því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn.