131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:32]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á lækkun tekjuskatts og hækkun barnabóta. Það er einmitt það sem við erum að gera, það var samið um að lækka tekjuskattinn um allt að 4% og hækka barnabæturnar verulega. Það er verið að setja núna 2,4 milljarða aukalega í það og lækka tekjuskerðingarnar. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að barnabæturnar voru orðnar allt of tekjutengdar. Nú er einmitt verið að draga úr þeim tekjutengingum. Þær voru miklu meira tekjutengdar þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn á sínum tíma.

Þessi er forgangsröðun okkar. Það er þetta tvennt aðallega eða þrennt, það er líka eignarskatturinn. Hér hefur verið komið á matarskatti líka. Við viljum gjarnan taka þátt í því að lækka hann en við setjum framar í forgangsröðina að lækka tekjuskatt og hækka barnabætur ásamt samstarfsflokki okkar, Sjálfstæðisflokknum. Ef það skapast svigrúm síðar til að lækka matarskattinn verður það að sjálfsögðu skoðað eins og er að hefjast núna i nefndarstarfi. Ég vísa því á bug sem hefur komið fram áður — það er kannski óhætt að gera það gagnvart hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur — að við viljum ekki lækka matarskattinn.