131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg í efa að bæturnar hafi í minni tíð sem ráðherra verið meira tekjutengdar en þær eru núna vegna þess að þær eru bullandi tekjutengdar. Þið afnámuð raunverulega það að hafa ótekjutengdar barnabætur árið 1997.

Ég minni hv. þingmann líka á það, virðulegi forseti, að þá voru barnabætur greiddar með öllum börnum að 16 ára aldri en ekki bara að sjö ára eins og er núna hjá stjórnarflokkunum. Ég minni hv. þingmann líka á að mér finnst það mjög skrýtin forgangsröðun að ætla að byrja á því að lækka meira skatta hjá þeim sem mest hafa fyrir þannig að það sé bara skattaparadís hátekjufólks en ekki skattaparadís lágtekjufólks. Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri fyrirspurn minni hvort hún hefði beitt sér fyrir því í sínum þingflokki að barnabætur yrðu teknar fram yfir lækkun á tekjuskattinum. Hv. þingmaður talar um virðisaukaskattslækkunina. Sú staðreynd stendur eftir að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem vill ekki setja í forgang að lækka virðisaukaskatt.