131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert hissa á því að hv. þingmaður treysti sér ekki til að ræða skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og fari 20 ár aftur í tímann til að reyna að þvæla málið. Ég er ekkert hissa á því. Hv. þingmaður gerir sér enga grein fyrir hver staða efnahagsmála var á árinu 1990 og hver hún er í dag. Hv. þingmaður gerir sér ekki grein fyrir því að í upphafi þessa kjörtímabils voru hagvaxtarspár þannig að ríkissjóður átti að fá í sinn hlut 40 milljörðum meira á kjörtímabilinu, 40 milljarða til viðbótar þeim 93 milljörðum út af auknum hagvexti. Hv. þingmaður gerir sér enga grein fyrir því að á árinu 1991 þar sem hann er að vitna í barnabætur voru útgjöld vegna þeirra 7,2 milljarðar en eru 5,4 milljarðar í dag. Þar erum við að bera saman raungildi, virðulegi forseti. Og þó að þær hafi verið skertar þá um 1 milljarð er ekki hægt að bera það saman. Þar enduðum við í 6,5 milljörðum en erum núna með 5,4 milljarða og það er ekki hægt að bera það saman við 10 milljarða lækkun á barnabótum í góðæri, virðulegi forseti.

Þessi ríkisstjórn sem bjó við lítinn hagvöxt stóð vörð um þá verr settu vegna þess að lífeyrir almannatrygginga, bæði atvinnuleysisbætur og lífeyrir bótaþega, var jafn lágmarkslaunum. Það var passað upp á það að bótaþegarnir hefðu ekki lakari kjör en var viðurkennt sem lágmarkslaun á vinnumarkaði. Við stóðum vörð um fatlaða þótt verið væri að skerða framlög víða í velferðarkerfinu. Það var aldrei skert til fatlaðra á þessum tíma. Vörður var staðinn um þennan málaflokk. Við pössuðum líka að atvinnulausir fengju sinn skerf af því sem þá var til skiptanna en þið skertuð atvinnulausa um 180 þús. kr. á ári frá 1997, 15 þús. kr. á mánuði. Og — ég ætlaði að segja drulluðust en geri það ekki — þið hækkuðuð einungis atvinnuleysisbæturnar upp í 88–90 þús. kr. eftir að verkalýðshreyfingin rak ykkur til þess í kjarasamningum.

Þetta er hugur ykkar til atvinnulausra. Ég mundi ekki hafa mjög hátt, virðulegi forseti.