131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:47]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi umrætt álit Eiríks Tómassonar er rétt að geta þess að þegar fyrsta frumvarpið kom fram í desember á síðasta ári var álit eða niðurstaða Eiríks á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þetta er það álit mitt að líkur séu á því að íslenskir dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að ráðgerð skerðing vaxtabóta á árinu 2004 … sé stjórnskipulega gild. Fyrir utan þau rök að um sé að ræða almenna og tiltölulega lítilfjörlega skerðingu á bótunum hygg ég að tillitið til þess að játa löggjafanum verulegu svigrúmi, til þess að grípa til ráðstafana í þeim tilgangi að draga úr útgjöldum ríkisins, muni vega þar þungt.“

Eiríkur Tómasson klykkir síðan út í lokin með eðlilegum fyrirvara um að hann viti ekki hvernig dómstólar muni endanlega komast að niðurstöðu í málinu. Það er því í rauninni mjög villandi að vitna til þessa álits með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði í fyrstu ræðu sinni, sérstaklega í ljósi þess að sú skerðing barnabóta sem við erum að ræða í dag er mun minni en sú sem var fyrirhuguð (Forseti hringir.) í desember í fyrra.