131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:09]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lítum svo á að tillögur ríkisstjórnarinnar gangi jafnt yfir alla. Þessi hópur var ekki tekinn sérstaklega út úr, en við skoðuðum hann sérstaklega gagnvart eignarskattinum. Þar er gríðarlega mikill munur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni vegna þess að eignirnar hér eru verðmætari eins og við þekkjum úr kjördæmi okkar, hv. þm. Kristján L. Möller, og kannski mesti munurinn þar.

Einnig þekkjum við að úti á landi eru víða lágtekjusvæði og eðlilegt að þeir sem greiða hæstu skattana fái mest til baka vegna þess að þeir eru með hæstu launin. Þetta lækkar sem því nemur. En tekjuskattslækkunin er einnig atvinnuhvetjandi, þannig að við vonumst auðvitað til þess að hún hafi þau áhrif líka.

Ég ítreka að munurinn á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar varðar sérstaklega eignarskattinn.