131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:11]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Kristjáns L. Möllers varðandi flutningskostnaðinn. Það er bara allt annað viðfangsefni og ekki í skattatillögum ríkisstjórnarinnar. Það er eitthvað sem við verðum að taka upp síðar.

Það er mikil einföldun að taka bara eignarskattinn út eins og hv. þingmaður gerir og ræða ekki um hinar tillögurnar. Hinar tillögurnar koma fólki á landsbyggðinni einnig til góða. Við skulum ekki halda að allir séu undir ákveðnum mörkum í launum á landsbyggðinni. Þar er líka t.d. menntað ungt fólk sem greiðir af námslánum sínum og tekjuskattslækkunin mun koma þeim til góða.

Sem betur fer á fólk úti á landi börn og hækkun barnabóta mun koma því til góða. Ég held því að hér sé um gríðarlega einföldun að ræða af hálfu hv. þingmanns.