131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:12]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef orðið miklar áhyggjur af Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Hann var upphaflega stofnaður sem félagshyggjuflokkur en hann er búinn að lafa svo lengi niður úr Sjálfstæðisflokknum sem botnlangi hans að hann er að verða eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Hann er að verða, eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, sagði um árið, eins og útgáfa af Sjálfstæðisflokknum og ætti bara að renna inn í hann.

Fram kemur í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur að hún hefur alveg gleymt því að upphaflega var Framsóknarflokkurinn þeirrar skoðunar að skattkerfið ætti að nota til jöfnunar. Hún kemur hingað og heldur ræðu sem að 2/3 hlutum er árás á matarskattinn. Það liggur alveg ljóst fyrir að sú skattaaðgerð hefur mest jafnandi áhrif. Eigi að síður voru 2/3 hlutar af ræðu hv. þingmanns ekkert annað en samfelld árás á lækkun matarskattsins og fram kom í máli hv. þingmanns að það er fjarri því að það sé í forgangi hjá Framsóknarflokknum að lækka matarskattinn.

Það er ekki í forgangsröð þess flokks, sagði hv. þingmaður fyrr í dag. Maður veltir því fyrir sér hvað sé í forgangsröð Framsóknarflokksins. Er það að bæta kjör barnafjölskyldna? Já, segir hv. þm. Dagný Jónsdóttir, en hún getur ekki sýnt okkur barnakortin sem hún lofaði. Hún getur ekki neitað því að Framsóknarflokkurinn hefur plokkað 10 milljarða af barnafjölskyldum í landinu.

Er það að bæta kjör atvinnulausra? Já, segir hv. þm. Dagný Jónsdóttir. En hún getur samt ekki neitað því að í tíð Framsóknarflokksins hefur verið skorið af vesaldarlegum tekjum atvinnulausra sem svarar tveggja mánaða bótum.

Mig langar að lokum að víkja aftur að matarskattinum. Hvers vegna er Framsóknarflokkurinn svo eindregið á móti lækkun matarskattsins?