131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:16]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég ber umhyggju fyrir Framsóknarflokknum vegna þess að við teljum til ákveðins skyldleika við hann, alveg eins og fálkinn er skyldur rjúpunni eins og sést á hjartalagi beggja. Ég gef hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur falleinkunn fyrir pólitíska stefnu, en hún fær 10 frá mér fyrir pólitískan ærleika. Hún kemur hingað og segir hreint út að hún sé ósammála hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssyni. Guðni Ágústsson sagði um daginn í útvarpi að víst vildi Framsóknarflokkurinn stefna að því að lækka matarskattinn. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kemur og segir það ærlega að hún sé annarrar skoðunar en varaformaður Framsóknarflokksins, hún telji að það eigi ekki að vera í forgangsröð hjá Framsóknarflokknum. Það er ærlegt af henni að segja það og þá vitum við líka að það er Framsóknarflokkurinn sem stöðvar lækkun matarskattsins. Hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde sagði í sjónvarpsþætti: Við vildum lækka matarskattinn um 4%, Framsóknarflokkurinn vildi fara aðra leið. Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra og (Forseti hringir.) nú hefur hv. þm. Dagný Jónsdóttir (Forseti hringir.) staðfest þetta. Hún er ekki á sömu skoðun og varaformaður Framsóknarflokksins.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að virða ströng tímamörk.)