131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:19]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í gærdag nýtti ég hluta úr degi í samræður við roskna frú úr Vesturbænum. Frúin hafði samband við mig eftir að hafa lesið grein sem ég fékk birta á síðum Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum. Greinin fjallar um kjör eldri borgara. Hún opnaði samræðurnar á því að lýsa yfir ánægju sinni með greinina. Hún gladdist yfir áhuga mínum á málefnum sem snúa að kjörum eldri borgara. Við ræddum saman í dágóða stund. Ég þarf varla að tíunda hér í ræðustól Alþingis hversu döpur þessi ágæta kona er yfir áformum ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Tekjur hennar losa rétt 100 þús. kr. á mánuði. Hún greiðir húsaleigu fyrir húsnæði, á erfitt með gang og þarf því að reka bifreið. Skattaáform ríkisstjórnarinnar skila konunni u.þ.b. 1 þús. kr. aukalega á mánuði í budduna. Það er hvorki blóm í haga né skælandi hamingja hjá vinkonu minni í Vesturbænum sem óskar þess eins að geta notið menningar í borginni. Hún getur ekki leyft sér að komast í leikhúsið fyrir þá aumu kjarabót sem bíður hennar eftir þessar skattalækkanir.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssamtökum eldri borgara hafa u.þ.b. 11 þús. eldri borgarar tekjur undir 112 þús. kr. á mánuði. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að einhenda sér í flata lækkun á tekjuskattsprósentu, en samkvæmt frumvarpinu munu þau áform kosta ríkissjóð eina 16 milljarða kr.

Það eru góð tíðindi þegar rými skapast til skattalækkana. Hins vegar deili ég á ríkisstjórnina fyrir framkvæmdina er snýr að tekjuskattinum. Breytingar á eignarskatti og áformin um barnabæturnar eru góðra gjalda verðar.

Síðustu daga hef ég notað tækifærið og leitað álits hjá fólki á skattaáformum ríkisstjórnarinnar. Ég spurði fólkið hvort nýta ætti 16 milljarðana með þeim hætti sem ríkisstjórnin áformar eða með þeim hætti að dreifa þeim jafnt yfir í krónum talið til fólksins í landinu, til að mynda með hækkun skattleysismarka.

Fólkið sem ég ræddi við hefur millitekjur og þar yfir, eða frá 250–600 þús. kr. á mánuði. Þetta fólk dreifist yfir hið pólitíska litróf og eins og tekjur þeirra endurspegla er ljóst að fleiri krónur kæmu í vasa þeirra ef leið ríkisstjórnarinnar yrði valin. Svör þeirra voru einróma. Þau vilja láta skattalækkunina jafnt yfir ganga.

Mín tilfinning er sú að fólkið í landinu búi almennt yfir þeim sóma að vilja þeim efnaminni vel. Samhugur og réttlætiskennd einkenndu svör viðmælenda minna. Þeim finnst sárt að sjá náungann í neyð og vilja því að sjálfsögðu stíga það skref að tryggja öllum Íslendingum sömu krónutöluna út úr fyrirhuguðum skattalækkunum.

Ég geri mér ekki fulla grein fyrir í hvaða veröld þingmenn stjórnarliðana lifa en viðmælendur mínir, vinnandi fólk á besta aldri, vilja aðstoða þá sem minna mega sín í okkar ríka landi. Samhugur og samkennd Íslendinga hefur ávallt verið einkenni þjóðar okkar á erfiðum tímum. Í því ljósi er mér skylt að minna á þá staðreynd að u.þ.b. 30 þús. Íslendingar lifa í dag undir fátæktarmörkum. Það eru sannarlega erfiðleikar víða í þjóðfélaginu. Á þeim forsendum get ég ekki stutt áform ríkisstjórnarinnar um flata lækkun tekjuskattsprósentu.

Frjálslyndi flokkurinn boðar einfaldleika í skattamálum sínum. Við búum ekki yfir her lögfræðinga, viðskiptafræðinga né hagfræðinga eins og ráðuneyti ríkisstjórnarflokkanna búa yfir. Við erum ekki mötuð daglega af tölulegum eða sögulegum upplýsingum, súluritum eða prósentum. Við reynum eftir mætti að nálgast fólkið í landinu. Við erum ekki einangruð frá samfélaginu, heldur erum við í beinni tengingu við landann sem færir okkur þá vissu hvert fara skal með skattamál þjóðarinnar. Við viljum réttlæti og að sama skapi að skynsemi ráði ferðinni.

Það er skynsemi í efnahagslegum skilningi að bjóða fólki mannsæmandi kjör. Frjálslyndi flokkurinn vill nýta skattasvigrúmið með þeim hætti að allir Íslendingar fái sömu krónutölu í vasann. Við viljum hækka persónuafsláttinn um 10 þús. kr. Við erum ekki andvíg því að mæta barnafjölskyldum með auknu svigrúmi. Einnig er ég sammála ríkisstjórninni er varðar breytingar á eignarskatti, nema ef vera skyldi að breytingarnar taki gildi strax á næsta ári en það vantar upp á. Það er útlit fyrir hækkun á fasteignaverði og má því ljóst vera að eignarskatturinn mun hækka 11% umfram launavísitöluna á næsta ári.

Virðulegi forseti. Eitt ár er mjög dýrmætt ár fyrir eldri borgara. Fátæktin elur af sér stórkostlegan kostnað fyrir íslenskt samfélag. Hæstv. forsætisráðherra kvartaði undan álögum í velferðarkerfinu í stefnuræðu sinni frá því fyrr í haust. Hann talaði um tvöföldun öryrkja á einungis tíu árum. Einmitt í þeim orðum glittir í kjarnann á skynsemisskorti ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar. Ríkisstjórn Íslands elur af sér stórkostlegan kostnað með því að hunsa aukna fátækt í landinu. Hún hunsar fjárhagserfiðleika tugþúsunda Íslendinga eins og endurspeglast í skattafrumvarpinu, sem og aftengingu vísitölu á skattleysismörkin árið 1998. Fólk bugast. Það bugast við það fátæktarumhverfi sem ríkisstjórn Íslands hefur skapað.

Umræðan um skattamál endurspeglar að stórum hluta allt svið hinnar pólitísku umræðu. Skattar nýtast til að halda uppi velferðarkerfinu og almennri stjórnsýslu í landinu. Að sjálfsögðu er mikilvægt að efnahagslegur stöðugleiki ríki í landinu svo almennt verðlag, hagvöxtur og kaupmáttaraukning verði raunin. Í fyrsta skiptið í mörg herrans ár má deila á hagstjórn stjórnarflokkanna.

Verðbólguspár Seðlabanka Íslands og hækkun á stýrivöxtum bankans hefur leitt til alvarlegra áhrifa í íslensku atvinnulífi. Framleiðslufyrirtæki, íslenskur iðnaður og útflutningur á undir högg að sækja vegna gengisþróunar íslensku krónunnar. Tekjuhlið atvinnuveganna fer dvínandi í slíku umhverfi og hætt er við að smærri og meðalstór fyrirtæki sem ekki búa yfir lántökum í erlendri mynt fari unnvörpum um koll á næstu missirum. Það er döpur hagfræði að letja atvinnuvegina á sama tíma og tekjur vantar í þjóðfélagið. Neysluna og verðbólguna verður að hemja og einmitt á því sviði á ríkisstjórnin að sýna fordæmi.

Í stað þess að hvetja ungt fólk í landinu til mikilla lántaka á ríkisstjórnin að róa umhverfið. Nú er svo komið að Íbúðalánasjóður hefur valið sparisjóðina til að keppa við önnur fyrirtæki á markaði. Mér er spurn hvað sjálfstæðismönnum finnst um þessa þróun. Hvernig stendur á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á ótrúlegu innstreymi erlends lánsfjár til viðskiptabankanna? Er það ekki rétt skilið hjá mér, virðulegi forseti, að Seðlabanki Íslands sé undir forsætisráðuneytinu og Íbúðalánasjóður heyri undir félagsmálaráðuneytið? Framsóknarmenn stýra þessum tveimur ráðuneytum. Framsóknarflokkurinn er laginn við að eyða peningum en því miður hafa þeir aldrei skilið hugsunina um hvernig skal afla þeirra.

Virðulegi forseti. Íslendingar verða að auka útflutningstekjur sínar. Við verðum að bretta upp ermar og fara að vinna í stað þess að eyða. Við eigum að hvetja ungt fólk til að gæta aðhalds og færa því tækifæri í stað ölmusu. Með öðrum hætti get ég varla séð hvernig skal landa 22 milljarða kr. skattapakka.

Við verðum að horfa til breytinga á Hafrannsóknastofnun Íslands en hún, ásamt íslensku ríkisstjórninni, heldur tekjum íslensks sjávarútvegs í heljargreipum. Í dag seljum við sjávarafurðir fyrir 120 milljarða kr. Með dugnaði og skynsemi getum við aukið tekjurnar strax á næstu árum um fleiri tugi milljarða íslenskra króna á ári hverju með því einu að tryggja hér skynsamlega fiskveiðistjórnun með auknu og dreifðu veiðiálagi á bolfiskstofnana.

Þegar kemur að iðnaði er íslensk þjóð illa stödd, sérstaklega er varðar fé til nýsköpunar. Ríkisstjórnin virðist blinduð af stóriðju og varla geta skilið að annar iðnaður verður að þrífast í landinu. Við eigum að tryggja menntafólki okkar tækifæri eftir menntun. Við eigum að tryggja breiðari og fjölbreyttari tekjugrundvöll. Við eigum að fjárfesta í þekkingu í stað steinsteypu. Skattfé okkar Íslendinga á ekki að nýtast í að greiða steinsteypu sendiráðsbygginga á erlendri grundu.

Virðulegi forseti. Í lok ræðu minnar vil ég beina aðvörunarorðum til sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn verður að sýna styrk sinn og koma ólum á draumreið framsóknarmanna í efnahagsmálum annars er hætt við að atvinnuvegirnir í landinu stórskaðist. En atvinnuvegirnir eru einmitt undirstaða öflugs velferðarkerfis í landinu. Að sama skapi verður Sjálfstæðisflokkurinn að opna augu sín fyrir breytingum í sjávarútvegi og tryggja þeim efnaminni með einum eða öðrum hætti tryggari afkomu.