131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:43]

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að leggja áherslu á nú, í 2. umr. um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Eitt atriði, sem aldrei er of oft minnst á, varðar m.a. heiti laganna sem ætlunin er að breyta. Lögin sem hér er fjallað um munu eftir breytingu, þegar hún nær fram að ganga, einungis nefnast lög um tekjuskatt. Þetta eru söguleg tíðindi, af því eignarskattur er afskaplega gamall skattur, var upphaflega lagður á vegna þess hve erfitt var að skattleggja tekjur manna, en eignirnar lágu nokkurn veginn fyrir. Í breyttu þjóðfélagi hefur þessi skattur síðan setið eftir sem arfur frá liðnum tíma og er á margan hátt mjög úr takt við viðhorf til skattlagningar í dag vegna þess að hann leggst á allar eignir yfir tilteknum mörkum, tiltölulega lágum mörkum, óháð því hvort þær gefa af sér einhvern arð eða ekki.

Árið 1996 var stigið það skref að skattleggja arð af eignum, þær tekjur sem menn hafa af eignum sínum, með upptöku fjármagnstekjuskatts, en eftir sat eignarskatturinn. Á síðasta kjörtímabili náði ríkisstjórnin því fram að lækka eignarskattinn verulega. Þá var jafnframt boðað að stefnt væri að afnámi skattsins. Það skref erum við nú að stíga.

Þessi skattur er arfur frá liðnum tíma. Í tilviki einstaklinga kemur hann oft mjög óréttlátlega út. Þarna er um að ræða eignir sem ekki endilega gefa af sér arð. Í mörgum tilvikum kemur þetta þannig út að vegna þess hve mörkin eru lág borgar fólk hlutfallslega háa eignarskatta af tiltölulega litlum fasteignum. Þessi skattur kemur því hart niður, fyrir utan að einnig er um ákveðna margskattlagningu að ræða þar sem fólk hefur auðvitað fyrst borgað skatta af tekjum sínum, síðan borgað skatta af vinnu og þjónustu og vörum í sambandi við að afla sér íbúðarhúsnæðis. Og loks er fólk rukkað árlega um eignarskatt af eignunum. Þessu ætlum við að breyta núna. Þótt eignarskatturinn skili ekki neitt óskaplega háum upphæðum í ríkissjóð í dag, þarna er um að ræða nokkra milljarða, þá er um að ræða verulega og mjög mikilvæga prinsippbreytingu. Þarna er verið að breyta grundvallaratriði og því ættu allir hv. þingmenn að fagna.

Þess má líka geta, sem hefur ekki verið rætt mikið, að um leið og eignarskattur á einstaklinga er afnuminn, er jafnframt verið að afnema eignarskatt á fyrirtæki. Því hafa hagsmunasamtök í atvinnulífinu lengi barist fyrir, vegna þess að eignarskattar á fyrirtæki eru nánast óþekktir í nágrannalöndum okkar. Þarna er um að ræða eitt af þeim atriðum í skattkerfi okkar sem hafa sett fyrirtæki okkar aftar á merina en fyrirtæki í samkeppnislöndunum. Það er því verulegt framfaraskref fyrir atvinnulífið að losna við þennan skatt. Þannig að hvað eignarskattinn varðar er ávinningurinn ótvíræður og skrefið sögulegt.

Varðandi tekjuskatt einstaklinga sem er kannski meginþunginn í frumvarpinu, þá er líka um stórt skref að ræða. Því þegar skattabreytingarnar, þessi fjögurra prósenta lækkun tekjuskatts einstaklinga, verða komnar til framkvæmda þá verðum við í fyrsta skipti frá upptöku staðgreiðslunnar komin niður á þann punkt sem skattlagningin var í á þeim tíma. Þetta segir sína sögu um þá óheppilegu þróun, sem var sérstaklega á fyrri hluta tímabilsins frá upptöku staðgreiðslunnar, að stjórnvöld gripu hvað eftir annað til skattahækkana. En nú höfum við í ákveðnum skrefum stigið í þá átt að færa skattlagninguna niður í það sem var 1988, þegar staðgreiðslan kom til framkvæmda. Það er líka sögulegt vegna þess að þróunin í sköttum hér á landi hefur því miður yfirleitt frekar verið upp á við en niður á við og það er sögulegt að okkur sé að takast að snúa því við. Við erum að ná verulegum árangri og við erum að snúa ákveðinni þróun við.

Þetta, virðulegi forseti, tel ég afar mikilvægt að við höfum í huga í umræðunni.

Til viðbótar þessu eru ákveðnar breytingar, sérstaklega hvað varðar barnabætur sem koma fjölskyldum í landinu til verulegra bóta. Það skref er líka mikilvægt, en ég held að í heildina sé okkur óhætt að fullyrða að hér er um að ræða stærstu skattalækkunaraðgerð í Íslandssögunni. Aldrei áður hefur verið stigið jafnstórt skref í áttina til að draga úr skattlagningu hins opinbera.

Nú skulum við velta aðeins fyrir okkur ákveðnum staðreyndum í sambandi við skattkerfið. Á undanförnum vikum og mánuðum hefur, ekki síst af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar, stundum verið óskapast yfir — í öðru orðinu er óskapast yfir sama hlut sem er síðan gagnrýndur út frá öðrum forsendum í hinu orðinu — að hlutfall samneyslu í samfélaginu hafi farið vaxandi, ég held að einhver hafi nefnt að það hafi ekki verið meira síðan 1980, þ.e. að þrátt fyrir að hlutföll ýmissa skatta hafi verið lækkuð á undanförnum árum hafa skatttekjurnar aukist. Á því er einföld skýring sem er mikilvægt að við höfum í huga í umræðunni. Það er vegna þess að skattkerfi okkar er þannig uppbyggt að stærstu skattstofnarnir eru annars vegar tekjuskattur og hins vegar virðisaukaskattur og eftir því sem tekjur aukast í samfélaginu og neysla eykst þá aukast skatttekjur ríkisins. Þetta má kalla prógressíft skattkerfi, en það felur í sér að þegar hagvöxtur ríkir og kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst þá aukast skatttekjur ríkisins, þótt ekkert sé hróflað við skatthlutföllum. Þetta hafa jafnvel sumir hv. þingmenn Samfylkingar leyft sér að kalla skattahækkun. Það hefur verið barið á ríkisstjórninni fyrir að hækka skatta, einfaldlega vegna þess að fleiri krónur skila sér í kassann af sömu skatthlutföllum, af óbreyttum skattareglum og áður voru. Þetta er auðvitað mjög villandi vegna þess að hvort sem við tölum um skattahækkun eða skattalækkun verðum við að horfa á aðgerðir sem eru teknar hér á hinu háa Alþingi, stefnumörkun af hálfu stjórnvalda, en við getum ekki talað um afleiðingar sem koma af aukinni veltu eða auknum tekjum í samfélaginu.

Hins vegar er ég á margan hátt sammála því þegar sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar ræða um að samneyslan sé að verða of mikil, hlutfall samneyslunnar í samfélaginu sé orðið of hátt. Þá velti ég fyrir mér hvernig eigum við að breyta því.

Áhrifaríkasta leiðin til að breyta því er auðvitað fólgin í að lækka skatthlutföll. Það er það sem munar mestu. Þess vegna tel ég að breytingarnar sem ríkisstjórnarflokkarnir berjast fyrir nú séu skref í rétta átt, vegna þess að til lengri tíma mun lækkun hlutfallanna skila sér í því að vöxtur samneyslunnar verði haminn. Afar mikilvægt er, virðulegi forseti, að þetta komi fram í umræðunni.

Nokkur önnur atriði er einnig vert að hafa í huga.

Við upphaf þessarar umræðu var nokkuð rætt um hagstjórnarleg áhrif skattalækkunaraðgerðanna. Það var gert í ljósi þess að nú standa yfir, og eru fram undan miklir hagvaxtartímar. Það er mikið fjármagn á ferð í samfélaginu. Það er að langmestu leyti afar jákvæð þróun. Það er jákvætt að hér eigi sér stað mikil fjárfesting, það er jákvætt að vel gangi í efnahagslífinu og það er jákvætt að meiri peningar komi inn í landið. Það á ekki að tala um slíkt eins og stórfellt vandamál, því þetta er jákvætt. Ef rétt er á málum haldið gefur þetta okkur kost á að ná stórkostlegum árangri á næstu árum.

Því hefur jafnvel verið haldið fram í umræðunni, einkum af talsmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að skattalækkunaraðgerðirnar komi á afar vondum tíma miðað við þróun í hagkerfinu. En þá er rétt að geta þess að stór hluti af þeim hagvexti og uppgangi sem við sjáum fram á núna stafar að aðgerðum í atvinnumálum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð var alltaf á móti. En látum það liggja milli hluta.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft áhyggjur af því að með því að lækka skatthlutföll væri verið að hleypa öllu í bál og brand í efnahagslífinu, sem yrði fyrir stórkostlegum skaða. Í staðinn hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð viljað halda skattlagningunni hárri, jafnframt því að halda útgjaldastiginu háu og halda áfram að auka útgjöld ríkissjóðs, sem gengur þvert á ráðleggingar hagfræðinga í bönkum, greiningardeildum bankanna, Seðlabankanum eða annars staðar þar sem höfuðáhersla hefur verið lögð á hve mikilvægt sé að gæta aðhalds í opinberum rekstri við núverandi aðstæður.

Fjárlögin sem við samþykktum í síðustu viku byggja á því að aðhalds sé gætt. Þau byggja á því að samneyslan vaxi mun minna en þjóðarframleiðslan þannig að hlutfallið fari minnkandi. Það er mikilvægt að við höldum okkur við það viðmið, að okkur takist að standast freistingar til að auka útgjöld, eins og sífellt koma kröfur um hér í þinginu. Stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi, þar á meðal (Gripið fram í.) hv. þingmenn Samfylkingarinnar setja sig aldrei úr færi um að taka undir kröfur um aukin útgjöld til hinna og þessara málaflokka sem eru til umræðu. Það er sama hvað er, nánast allar fyrirspurnir sem beint er til ráðherra hér í þinginu einkennast af óskum um meiri útgjöld.

Nánast hver einasta þingsályktunartillaga sem borin er fram af þingmönnum hv. stjórnarandstöðu, felur í sér kröfur um aukin útgjöld. Svo koma sömu hv. þingmenn með heilagleikasvip og tala svona abstrakt af og til um að þeir vilji meira aðhald. Það er voðalega auðvelt að koma hér og tala abstrakt um meira aðhald, en styðja svo allar tillögur um meiri útgjöld. Þetta höfum við hlustað á hér í þinginu frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.

Það má segja að hv. þingmenn (Gripið fram í: … er nú svolítið abstrakt hjá öðrum.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi þó verið samkvæmir sjálfum sér að því leyti að þeir vilja halda skattbyrðinni hárri og jafnvel halda útgjöldunum háum, en Samfylkingin vill einhvern veginn vera öllum allt, vill þegar það hentar tala fyrir aðhaldi í opinberum rekstri, vill þegar það hentar styðja hverja einustu tillögu um aukin útgjöld sem fram kemur í þinginu, og niðurstaðan verður auðvitað sú að erfitt er að átta sig á hvað sá flokkur vill. Það er heldur ekki sama hvaða talsmaður Samfylkingarinnar talar hverju sinni. Það er ekki sama við hvaða umræðu er talað. Það er eiginlega eins og þessi flokkur virðist alltaf hafa það að markmiði að vera öllum allt, en niðurstaðan verður auðvitað sú að enginn kjarni verður í stefnu hans.

Varðandi umræðuna sem hér hefur farið fram má segja að mjög hafi einkennt hana að ræðumenn Samfylkingarinnar, hv. þm. Samfylkingarinnar, hafa meira og minna reynt að drepa umræðuna á dreif. Það má hv. þm. Ögmundur Jónasson þó eiga að hann kom inn á vissan kjarna umræðunnar þegar hann gat þess í ræðu sinni í morgun að spurningar um skattamál væru auðvitað spurning um grundvallarstefnu í pólitík.

Þetta frumvarp kallar auðvitað fram umræður um grundvallarstefnu í pólitík. Það kallar fram umræður um hvort menn vilji yfir höfuð lækka skatta. Hafa menn áhuga á að lækka skatta? Hafa menn yfir höfuð áhuga á því að setja hinu opinbera einhvern ramma, að koma í veg fyrir stöðuga útþenslu hins opinbera? Það reynir á. (Gripið fram í: Það reynir nefnilega á.) Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið nokkuð samkvæm sjálfri sér í þessu máli, þó að ég sé í grundvallaratriðum ósammála stefnu flokksins, en Samfylkingin aftur á móti hefur verið afar vaklandi í þessu. Niðurstaðan hefur verið sú að þetta væri ekki á réttum tíma, þetta væru ekki réttu skattalækkanirnar, menn hafi ekki alveg treyst sér til að vera á móti eignarskattinum, en eru samt að agnúast út í afnám eignarskattsins eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði áðan. Það má eiginlega segja að menn séu að reyna að drepa málinu á dreif af því þeir leggja ekki í að taka slaginn um grundvallaratriðin. Þeir leggja ekki í að taka slaginn um prinsippin, um hvort stefna eigi að lægri sköttum í framtíðinni eða ekki.