131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:00]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að byrja á að óska hv. þm. Birgi Ármannssyni til hamingju með skattahækkanirnar. Hann hefur um árabil, alveg frá því að hann hóf opinber afskipti af stjórnmálum fyrir tæpum 20 árum, held ég, í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins barist mjög fyrir skattalækkunum en nú á sínum öðrum þingvetri hefur hann staðið að því með félögum sínum að hækka álögur á landsmenn um 8 milljarða ef lögð eru saman áhrifin á ríkissjóð á árunum 2004 og 2005. Það er vissulega ástæða til að taka ofan fyrir þessum stefnumiðum í starfi flokksins.

Hann talaði hér í sinni góðu og ágætlega fluttu ræðu töluvert um eignarskattinn. Mig langaði að spyrja þá sérstaklega hvort ekki væri vænlegri leið og sanngjarnari til að ná markmiðunum að hækka og breyta fríeignamarkinu til betri vegar í stað þess að afnema skattinn að fullu. Það má auðveldlega færa rök fyrir því að eignarskatturinn sé tekjustofn sem eigi fullan rétt á sér eins og aðrir skattstofnar, rétt eins og tekjuskatturinn og fjármagnstekjuskatturinn. Er ekki réttlátara og sanngjarnara að hækka mörkin þannig að ekki sé verið að skattleggja þá sem lítið hafa á milli handanna? Sérstaklega er talað um eldra fólk sem á húseignir, hefur lítið til framfærslu og munar verulega um að losna við eignarskattinn. Samt væri um leið hægt að halda eignarskattsnámi áfram af þeim sem eiga miklar eignir og mikla peninga og hafa vel efni á því að standa þannig undir skattinum. Er það ekki réttari nálgun að málinu en að afnema skattinn að fullu og öllu sem kemur þannig fyrst og fremst þeim til góða sem eru á okkar mælikvarða verulega efnaðir?