131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:02]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er nei. Ég tel langeðlilegast gagnvart eignarskattinum að leggja hann niður. Ef ekki hefði verið útlit fyrir að meiri hluti næðist fyrir því hér á hinu háa Alþingi að leggja skattinn niður hefði ég stutt breytingu í átt til hækkunar fríeignamarks. Ástæðan fyrir því að ég er á móti eignarskatti er auðvitað bara sú að ég tel grundvöll þeirrar skattlagningar rangan. Ég tel að verið sé að skattleggja á röngum forsendum. Þess vegna finnst mér mikil hreinsun að því að losna við þennan skatt alfarið í staðinn fyrir að vera að hrófla eitthvað með viðmið í því sambandi.

Varðandi hinar meintu skattahækkanir sem hv. þingmaður vék að og sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa áður vikið að verð ég að segja að þarna finnst mér menn vera að seilast ansi langt, ég get ekki sagt annað. Ég hef reyndar ekki farið yfir þessa liði krónu fyrir krónu en það er verið að vísa, að því er mér sýnist, í öllum tilvikum til þess að verið er að hækka gjöld, hækka skatta, vissulega, til að nálgast þær breytingar sem orðið hafa á vísitölu. Það gerist ekki í öllum tilvikum. Í mörgum tilvikum, t.d. eins og í frumvarpinu um aukatekjur ríkissjóðs sem nú er búið í 2. umr., er held ég hvergi, kannski í einu tilviki eða tveimur af 300, verið að nálgast vísitölubreytingar frá því að þessum gjöldum var síðast breytt.

Ástæðan fyrir því að ég styð þetta er sú að ekki er búið að taka pólitíska ákvörðun um að afnema þetta sem tekjustofna. Þetta eru áfram tekjustofnar ríkisins og ég tel ekki óeðlilegt að þeir haldi nokkurn veginn í við einhverja verðlagsþróun. Þeir gera það samt yfirleitt ekki, við skulum hafa það í huga. Ég er hins vegar tilbúinn að ræða það með hvern og einn tekjustofn, eins og um eignarskattinn, hvort yfir höfuð sé ástæða til að viðhalda honum.