131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:07]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í samanburði við þau lönd sem Íslendingar iðulega bera sig saman við, Norðurlöndin og ýmis ríki í vestanverðri Evrópu, er skattstig hér á landi lágt, það er mun lægra en gerist annars staðar. Það er alveg rétt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur efasemdir um að við getum leyft okkur að fara neðar með þetta skattstig, hina almennu skattheimtu í landinu.

Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess, og um það snýst hinn pólitíski ágreiningur í landinu, að við viljum að sú samfélagsþjónusta sem við öll, hvar í flokki sem við stöndum, erum sammála um að sé við lýði í landinu í einu eða öðru formi verði fjármögnuð í gegnum skattheimtuna, gegnum almannasjóð, í stað þess að fara hina leiðina, hina pólitísku leiðina og láta notandann borga beint. Um þetta snýst hinn pólitíski ágreiningur, hvernig eigi að greiða fyrir þá samfélagsþjónustu sem við erum öll sammála um að sé við lýði í einhverju formi. Það er í þessu ljósi sem við verðum að skoða og skilja skattapólitík Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er hins vegar ekki markmið í sjálfu sér, óháð þessum kringumstæðum, að hafa skattheimtu eins háa og kostur er og útgjöld eins mikil og kostur er. En þetta er hið pólitíska samhengi sem við höfum lagt áherslu á.