131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:09]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þarna er um ákveðinn greinarmun á pólitískum grundvallarsjónarmiðum að ræða. Hv. þm. Ögmundur Jónasson og flokkur hans vilja gjarnan, að því er manni sýnist, hafa það þannig að sem mest sé innheimt í skatta og síðan taki stjórnmálamennirnir ávörðun um það hvernig peningunum sé varið.

Ég kem úr flokki sem hefur stutt samfélagsþjónustu í landinu í gegnum áratugi. Ég er samt þeirrar skoðunar að það eigi að stækka þann hluta þjóðarkökunnar sem einstaklingar hafa sjálfir til ráðstöfunar og minnka þann hluta sem stjórnmálamenn hafa til ráðstöfunar. Í því held ég að grundvallarmunurinn á sjónarmiðum mínum og hv. þm. Ögmundar Jónassonar liggi. Það er grundvallarmunurinn: Viljum við að stjórnmálamennirnir taki sem mest til hins opinbera og deili síðan út til þeirra verkefna sem þeir telja mikilvæg eða viljum við skilja meira eftir hjá fólkinu í landinu, hjá almenningi, og gefa því kost á að verja sjálfsaflafé sínu að meira leyti eftir eigin ávörðunum?