131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:10]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera tvíþætt spurning. Önnur er um leiðir til að stækka kökuna. Þar greinir okkur á í grundvallaratriðum. Annars vegar eru þeir sem telja að með sem lægstu skattstigi, sem minnstum skattálögum séu meiri líkur á því að kakan stækki, að það í sjálfu sér örvi menn til athafna.

Síðan er hin skoðunin, hin nálgunin sem er okkar skoðun, að atvinnulífinu farnist best í sterku samfélagslegu umhverfi þar sem velferðarþjónustan er góð, þar sem þjónusta við atvinnulíf og heimili er góð.

Síðan kemur að stjórnmálunum, hvað eigi að vera til ráðstöfunar af hálfu stjórnmála og hvað af hálfu almennings. Ég dreg ekki þessa línu þarna á milli. Við erum að tala um almannavald. Við erum að tala um samfélagslegar stofnanir á borð við skóla og sjúkrahús og annað af því tagi þannig að ég dreg ekki þessar línur á milli hinna illu stjórnmálamanna annars vegar og almennings hins vegar. (Forseti hringir.) Auðvitað eiga hagsmunir þessara beggja að fara saman.