131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:51]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tekjur ríkissjóðs byggjast á mörgum stoðum. Mér heyrist að ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson séum sammála um að við ættum að stilla bæði skattstigið og útgjaldastigið hjá ríkinu lægra en við gerum í dag.

Ég velti fyrir mér og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson svaraði því ekki áðan: Hvort er betra að ná fram skattalækkunum með því að frysta krónutölur ýmissa gjalda sem lögð eru á hér og þar í kerfinu eða með því að taka stefnumarkandi ákvörðun um það að lækka tekjuskatt einstaklinga sem er einhver stærsti skattstofn ríkisins? Ef við metum það svo í sameiningu að það sé svigrúm til skattalækkana, er það sérstakt markmið Samfylkingarinnar að ná því fram með því að frysta einhver krónutölugjöld, einhverja hundraðkalla hér og tvöhundruðkalla þar? Er það það sem Samfylkingin vill ná fram?

Við getum svo hins vegar rætt það, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, (Forseti hringir.) hvort við getum fækkað tekjustofnum ríkisins eins og við erum að gera í dag með því að afnema eignarskattinn.