131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:52]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þingmönnum sé órótt þegar það er dregið fram að ríkissjóður hefur aldrei tekið stærri hluta af landsframleiðslunni í sína sjóði, því þessir hv. þingmenn höfðu allt aðrar hugmyndir í pólitík og hafa presenterað sig með allt aðrar hugmyndir í pólitík en það að þeir séu mestu skattahækkunarmennirnir og ríkissjóður hafi aldrei verið stærri en meðan þessir hv. þingmenn eru hér partur af meiri hluta Alþingis og fylgja ríkisstjórninni. Auðvitað líður þeim illa yfir því vegna þess að þeir voru búnir að kynna sig í sinni pólitík sem allt aðra menn með allt aðrar hugsjónir og allt aðrar hugmyndir. Auðvitað líður þeim illa yfir þessu og ég skil vel að þeir komi hér upp hver um annan þveran og reyni að færa að því rök að svart sé hvítt og hlutirnir líti einhvern veginn allt öðruvísi út en þeir raunverulega gera.

En hv. þingmaður svaraði því ekki heldur hvort það að skattleysismörk og persónuafsláttur hafa ekki (Forseti hringir.) fylgt launavísitölu og neysluvísitölu sé þá skattahækkun með sömu röksemdafærslum og hann er með. Ég tek það svo að því sé svarað játandi.