131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:53]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í dag hefur smátt og smátt verið dregin upp ágætismynd af því hvaða áherslur stjórnarandstöðuflokkarnir hafa í skattamálum. Þær áherslur birtast auðvitað fyrst og fremst í þeirri gagnrýni sem þeir flokkar færa fram á það mál sem hér er til umræðu. Samandregið má sjá af því sem fram hefur komið í umræðunni að það var rétt sem við héldum fram fyrir kosningar að engir aðrir hefðu lækkað skatta jafnmikið og stjórnarflokkarnir eru að gera einmitt núna, vegna þess í fyrsta lagi að þeir sem þóttust ætla að mynda vinstri stjórn eftir síðustu kosningar, ef þeir hefðu fengið umboð kjósenda til þess, eru ekki sammála í þessum málaflokki. Vinstri grænir hefðu haldið aftur af Samfylkingunni í málinu. Ekki nóg með það, heldur kemur fram í þessari umræðu að hv. þingmaður er ósáttur við lækkun hátekjuskattsins. Hann er líka ósáttur við að tekjuskatturinn skuli vera lækkaður jafnmikið og raun ber vitni. Þetta eru þá skilaboð til þeirra sem greiða hæsta tekjuskattinn: Samfylkingin hefði ekki komið til móts við ykkur í kjölfar kosninganna ef þeir hefðu komist til valda. Það er alveg klárt, það er kristaltært af þessari umræðu.

Annað sem hér er dregið fram, sem er auðvitað kolrangt, er að verið sé að færa til byrðina þannig að henni sé létt meira af þeim sem greiða hærri skatta. Það er áfram svo að þeir sem hæstar hafa tekjurnar greiða hæstu skattana hlutfallslega af launum sínum. Það er vegna þess að við erum með það frítekjumark og þann persónuafslátt sem menn þekkja. Þeir sem hæst hafa launin greiða hlutfallslega hæsta skattinn af tekjum sínum.