131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:55]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki frá því að hér hafi verið sett einhvers konar met í flóttaleiðum frá þeim veruleika að ríkissjóður hefur aldrei nokkurn tíma verið stærri sem hlutfall af landsframleiðslu. En að leggja út á þá vegferð að reyna að færa rök fyrir máli sínu þannig að ef önnur ríkisstjórn hefði verið við völd og hugsanlega Vinstri grænir þá væri staðan hér allt önnur. Þá værum við að tala um allt aðra pólitík og einhverja allt aðra hluti.

Hvað er hér á dagskrá, hvað er hér til umræðu? Við erum að tala um frumvarp ríkisstjórnarinnar, við erum að ræða um aðferðafræði sem þar birtist. Við erum að tala um hvernig menn sjá skattkerfið, hvaða áherslur menn hafa og hvort menn vilji sjá skattkerfið sem tekjujöfnunartæki eða hvort menn vilji sjá skattkerfið þannig upp byggt að minnstar byrðar séu á þeim sem mest hafa, og menn skuli þá innheimta annað í þjónustugjöldum, komugjöldum á heilsugæslu o.s.frv. Þetta er sú pólitík sem hv. þingmenn hér stunda.

Við höfum reynt að benda á það í umræðunni að skattalækkanirnar eru fjármagnaðar með þessum þjónustu- og komugjöldum sem lögð eru á á annan hátt. Það hefur farið alveg óskaplega fyrir hjartað í þessum hv. þingmönnum, ungu þingmönnum sem komu inn á hið háa Alþingi með allt aðrar hugmyndir en að verða hluti af þeirri ríkisstjórn sem tekur stærsta hlutfall af landsframleiðslunni sem gert hefur verið í 25 ár. Það voru ekki hugmyndir þessara manna. Þeir eru hins vegar fastir í því, þessir hv. þingmenn, og þeir eru að reyna að færa rök að því að hlutirnir séu einhvern veginn öðruvísi og ef að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon værum saman í ríkisstjórn væri þetta einhvern veginn allt öðruvísi.

Virðulegi forseti. Þetta er einhver ótrúlegasta flóttaleið sem ég hef heyrt í umræðu á hinu háa Alþingi.