131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:58]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt hér að það er hagvöxtur í samfélaginu og það er kraftur í efnahagslífinu. Við höfum hins vegar bent á það að ríkið hefur aldrei tekið meira til sín. Skatttekjur ríkisins eru að aukast um 7% og hver er hagvaxtarspáin núna? Hún er 5%. Hver er verðbólguspáin? Hún er 3,5%.

Það gengur ekki að koma hingað upp og reyna að vísa til þess að ef lífið væri öðruvísi og allt aðrir menn við stjórn og allt aðrir menn á þingi þá værum við hugsanlega að tala um allt aðra hluti og það sé einhvers konar útgönguleið í því þegar veruleikinn og myndin er dregin upp fyrir þessum hv. þingmönnum.

Ég vil bara ítreka það að ég veit að þá dauðlangaði að vera í annars konar meiri hluta, ég veit að þá dauðlangaði að styðja allt aðra ríkisstjórn. En veruleikinn er bara mættur í bæinn og ég veit að það er sárt.