131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:29]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það er dýrt að reka góða samfélagsþjónustu. Það er dýrt að reka velferðarþjónustu, það er dýrt að reka heilbrigðiskerfið, en það er enn þá dýrara eftir að markaðssinnar, eftir að einkavæðingarsinnar — og því miður hafa framsóknarmenn verið í þeim hópi — hafa farið um það höndum.

Ég ætla að taka eitt dæmi. Ef Elliheimilið Grund fengi greitt á sömu forsendum og Sóltún hf., sem er rekið af Öldungi hf., eða var það alla vega, væru greiðslurnar til þess elliheimilis 285 millj. hærri en þær eru núna. Hvers vegna? Ríkisendurskoðun gaf svar við þeirri spurningu. Það er vegna þess að eðlilegt er að eigendurnir, hluthafarnir, krefjist arðs út úr rekstrinum.

Þess vegna segi ég: Það er rangur mælikvarði, það eru rangar vísbendingar sem við fáum þegar Framsóknarflokkurinn hælir sér af því að hlutfallslega hafi útgjöld til velferðarmála annaðhvort staðið í stað eða jafnvel aukist. Við verðum að líta til þessara kerfisbreytinga sem eru — mér liggur við að segja — framdar í skjóli Framsóknarflokksins og gera kerfið miklu dýrara fyrir vikið án þess að það skili sér til þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar.