131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það fer gegn meginsjónarmiðum í menntastefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leggja skólagjöld á nemendur í opinbera menntakerfinu og við höfum gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að leggja til skólagjöld í dulbúningi við þrjár opinberar menntastofnanir, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Menntaskólann á Akureyri. Við teljum að þar sé farið gegn gildandi menntastefnu um efnahagslegt jafnrétti til náms og skammarlegt að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að seilast með þessum hætti í vasa stúdenta og sækja þangað fjármuni sem eiga að nýtast almennum rekstri háskólanna — eftir að hafa haldið þessum menntastofnunum æðri menntunar í fjársvelti um langt árabil.

Það hefur verið deilt um skrásetningargjöld í opinberum háskólum hér í þingsölum allan sl. áratug og ekki hjaðna deilurnar nú þótt áróður ríkisstjórnarflokkanna fyrir skólagjaldaleiðinni og markaðsvæðingu menntunar hafi glumið í eyrum þjóðarinnar þann tíma.

Virðulegur forseti. Hér er verið að fara á svig við það meginstef sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja skyldu sína að verja, nefnilega fjárhagslegt jafnrétti til náms. Þar við bætist svo aumkunarverð tilraun yfirvalda menntamála til að sveigja þetta gjald og beygja þannig að þau geti réttlætt að kalla það skráningargjald. Þessum gjörningi öllum mótmælum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og greiðum atkvæði gegn öllum frumvörpunum þremur.