131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:49]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er stigið enn eitt skref í átt að innheimtu skólagjalda í grunnnámi í ríkisháskólunum. Þessi skattahækkun á námsmenn er ekki sértæk gjaldtaka til að mæta ákveðnum kostnaði eins og lagt er upp við innritun námsmanna, heldur er hér um að ræða almenna tekjuöflun til reksturs ríkisháskólanna þriggja sem notuð er sem forsenda við framlög ríkisins til skólanna, en skólana skortir á bilinu 500–800 milljónir til að geta staðið undir rekstri sínum.

Þetta eru skólagjöld og hreinlegast væri fyrir stjórnvöld að viðurkenna það og um hvers konar skattahækkun sé að ræða, á hvaða vegferð við séum og hvert sé stefnt. Hér er um að ræða stórt skref í átt að því að nemendur standi sjálfir í auknum mæli undir kostnaði við nám í ríkisháskólunum, hér er stigið mjög stórt skref í þá átt og ég harma það, virðulegi forseti, og segi nei.