131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:28]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, greinargóða og bráðskemmtilega, sérstaklega það sem kom fram í byrjun hennar um þá helgistund sem þeir áttu saman, hann og hv. þm. Pétur H. Blöndal, í sambandi við þetta mál, að nú væri verið að lækka skatta og hér væri um mikið framfaramál að ræða og hinn róttæki hægri armur Sjálfstæðisflokksins sem sópaðist inn á hið háa Alþingi í síðustu þingkosningum stæði loksins frammi fyrir því að þeir væru menn orða sinna, hér væri verið að lækka skatta. En á móti koma staðreyndirnar. Verið er að hækka skatta um tæpa 3 milljarða og hafa menn hent á lofti að hér væri um að ræða einhver blóðugustu kosningaloforðasvik seinni ára.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvort þessar staðreyndir vörpuðu engum skugga á þá helgistund sem þeir félagar áttu hér á síðustu dögum, eins og fram kom í máli hans, að um leið og téðir skattar eru lækkaðir, hátekjuskattur, eignarskattur afnuminn, tekjuskattur lækkaður, er verið að hækka önnur gjöld og aðra skatta á sama tíma um 8 milljarða árin 2004 og 2005, verið að hækka gjöld og skatta á eiginlega allt milli himins og jarðar, stúdentaskatta, brennivínsskatta og ég veit ekki hvað, komugjöld og heilbrigðisgjöld hvers konar, fordæmalaus forsjárhyggja veður uppi hvað varðar áfengisskattana þar sem skattar á sterkari drykki eru hækkaðir verulega en hinir látnir standa í stað. Mig langar einnig að fá viðhorf hans til þess hvort hér sé ekki um að ræða forræðishyggju sem eigi engan rétt á sér, hvort ekki ætti frekar að lækka almennt gjöld á áfengi og láta fólk ráða því sjálft hvers það neytir en stýra því ekki ofan frá með jafnundarlegum og vafasömum hætti og gert er af hinu miklu riddurum frjálshyggjunnar á Alþingi.