131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:40]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru engin særindi af minni hálfu. Ég er ekki sár, ég er glaður og ánægður með þær breytingar sem við erum að ráðast í.

Ég vil hins vegar geta þess út af því sem kom fram í andsvari hv. þm. Gunnars Örlygssonar að ríkisstjórnin hefur á síðustu árum gert margt og gripið til mikilla aðgerða og átaka til að koma til móts við ýmsa láglaunahópa eins og aldraða, öryrkja, atvinnulausa og lágtekjufólk. Hér hefur verið stöðug kaupmáttaraukning og ef hún er skoðuð hlutfallslega þá hefur hún verið mest hjá þeim sem minnst hafa. Ég er hins vegar ekki að segja að þeir séu of sælir af tekjum sínum, alls ekki, það væri óskandi að þær tekjur væru hærri. En hins vegar hafa menn lagt sig verulega fram við að auka kaupmátt þessa fólks (Forseti hringir.) og nú er komið að þeim breytingum sem við mælum fyrir.