131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:46]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær aðvaranir sem ýmsir hagfræðingar hafa haft uppi um að nú sé spenna í samfélaginu gilda hjá ýmsum þeirra svolítið lengra fram í tímann en bara út næsta ár. Það er ekki ástæða til þess að halda að það dragi neitt úr spennunni að ráði árið 2007 þó að talað sé um að allar skattalækkanir verði komnar til framkvæmda þá. Ég held þess vegna að þó svo menn taki núna ákvarðanir með lagasetningu sem fer í gegnum Alþingi muni þeir sem ætla að stunda ábyrga stjórn á fjármálum ríkisins hugsanlega þurfa að standa frammi fyrir því að sömu rök verði fyrir því að halda aftur af spennu í samfélaginu þegar þar að kemur. Þá þurfa menn hugsanlega að taka til baka eitthvað af því sem verið er að gera ef þeir ætla að stunda ábyrga stjórn á fjármálum ríkisins. Það er furðulegt að menn taki ákvarðanir svona langt fram í tímann sem þeir hafa ekki hugmynd um hvort þeir geti staðið við.