131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:36]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst benda á að málið er á forræði Alþingis núna. Við ræðum hér nefndarálit. Málið er að koma úr nefnd og ég tel ekki við hæfi að ráðherrar séu kallaðir til umræðunnar þegar Alþingi ræðir nefndarálit.

Þetta var mjög góð ræða hjá hv. þingmanni og algjörlega í samræmi við sjónarmið hans og lífsskoðun. Það var ekkert sem kom mér á óvart í henni, enda hygg ég að hann eigi mikið auðveldara með að tala um þetta mál en margur hv. samfylkingarmaðurinn sem hefði gjarnan viljað standa að frumvarpinu, því þetta er einmitt frumvarp í anda margra samfylkingarmanna.

Hv. þingmaður hefur fundið nýja leiðtoga hjá KB-banka sem spá fyrst mikilli gengisstyrkingu en síðan gífurlegu gengisfalli. Ég skil ekkert í þeim mönnum að fara ekki í gang með öll sín tæki og tól með framvirkum mörkuðum og byrja að kaupa dollara og aðrar myntir. Svo kom hv. þingmaður með boðskap frá Birgi Ísleifi Gunnarssyni seðlabankastjóra um þveröfugt, að gengið mundi haldast hátt. Nú er maður dálítið ruglaður. Ég held nefnilega að þetta verði einhvers staðar þarna á milli.

Hv. þingmaður gat um að fyrirtækin væru að fara úr landi. Þau eru að fara úr landi til að elta lág laun en ekki út af gengi eða sköttum. Svo minni ég á að ástandið er mjög gott á Austurlandi. Þar er fólk mjög glatt, eins og reyndar ég.

Undanfarin tíu ár höfum við upplifað mikla hækkun launa hér á landi. Óvenjumikil hækkun launa. Miklu meiri umsvif í þjóðfélaginu. Kakan stækkar og stækkar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því hann trúir þessu ekki eða neinu, hvernig honum lítist á að jaðarskattar skuli vera að lækka, tekjuskatturinn er 4%, barnaskerðingin 1%, LÍN 1% og vaxtabæturnar um 0,5%: Er þetta ekki eitthvað sem hann getur verið ánægður með?