131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi um brottför íslenskra fyrirtækja til útlanda voru öll þess eðlis að þau voru að elta lægri laun.

Gengisfellingin virkar ekki þannig á fyrirtæki að það séu bara tekjurnar, það eru líka skuldirnar, aðföng ýmiss konar, olía, skip og allt slíkt. Þegar maður lítur á afkomu fyrirtækja með augum utan frá, t.d. með dollaraaugum, breytist ekki neitt nema innlendur kostnaður, þ.e. laun starfsmanna hækka. Það er það eina sem breytist og öll góð fyrirtæki eru að sjálfsögðu með tryggingar fyrir slíku. Þau eru með gengistryggingar. Þau tæki eru komin á hér á landi, þökk sé t.d. nýjum leiðtoga hv. þingmanns, KB-banka. Þar geta fyrirtæki keypt sig frá áhættunni. Ég reikna með að velflest þeirra hafi þegar gert það og séu búin að tryggja sig örugglega í hálft ár eða heilt ár fyrir þeirri gengishækkun sem nú varð. Þetta kemur því ekki eins illa við þau og menn kynnu að halda. Menn eru með tæki og tól til þess að ráða við svona sveiflur, alla vega til skamms tíma. Ég hygg að sú mikla sveifla sem kom eftir vaxtahækkun Seðlabankans muni að einhverju leyti ganga til baka. Ég hef ekki þá trú sérfræðinga KB-banka sem að sögn hv. þingmanns spáðu gífurlegu gengisfalli, ég held að það gerist ekki því það væri þegar búið að gerast. Það er nefnilega í gangi framvirkur markaður og spákaupmennska til að jafna sveiflurnar, þó hún sé kannski fulllítil.