131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur verið ákaflega áhugaverð og um margt forvitnileg. Það má segja að hún hafi einkennst annars vegar af því að hægri armur Sjálfstæðisflokksins undir forustu Péturs Blöndals hafi hreykt sér mjög af stöðunni, skattalækkunum, og því að hafa náð fram stefnu sinni. Þeir eru þess vegna mjög uppteknir af því hver stefnan sé og eru ekki með neinn leikaraskap um að ærleg hægri stefna sé uppi í Sjálfstæðisflokknum. Og hins vegar af því að framsóknarþingmennirnir sem hafa tekið til máls hafa reynt að verjast fimlega, án þess að þeim hafi tekist það varðandi hvert stefnir í rekstri ríkisins. Það er forvitnilegt hverjir hafa tekið til máls og hvernig málflutningurinn hefur verið.

Mér finnst full ástæða til, þegar umræðan heldur áfram og áður en ég vík að málinu sjálfu, að skoða í hvaða umhverfi við ætlum að ræða skattalækkun ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi hafa orðið gríðarlegar breytingar á síðustu 10–15 árum og mat flestra fræðimanna er að þær eigi sér rætur í tvennu; í fyrsta lagi EES-samningnum sem opnaði bæði hagkerfið og fjármálamarkaðinn hérlendis og svo í samkomulaginu á vinnumarkaði, svokallaðri þjóðarsátt, um að ná niður verðbólgu og vinna að stöðugleika. Þessi punktur finnst mér eiga að vera til umhugsunar fyrir þá sem hafa komið hér nokkrum sinnum í dag og gasprað um kjararýrnun á árunum sem í hönd fóru og reynt að gera flokkana sem voru við stjórnvölinn á árunum 1991–1995 tortryggilega, vegna þess að óhjákvæmilega breyttust tekjur og afkoma þegar aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að frysta laun til að ná niður verðbólgunni. Það liggur í augum uppi. Stundum er svolítið erfitt að hlusta á málflutning eins og þann sem fór fram á tímabili í dag, horfandi til þess sem þá gerðist, þess gífurlega átaks sem fjöldi manns átti aðild að, en sérstaklega þó launafólkið í landinu, því það var ekki auðvelt fyrir þá sem áttu hlut að máli í óðaverðbólgu að binda launin föst til að ná verðbólgunni niður og skapa stöðugleika.

Þetta eru aðgerðir og atburðir sem eiga sinn þátt í því að í dag erum við meðal 10 auðugustu þjóða heims og ættum því að geta búið öllum þegnum samfélagsins góða afkomu. Það er athyglisvert og fæstir leiða hugann að því að yfir 10% af vinnuafli þjóðarinnar á aldrinum 25–40 ára, eru af erlendu bergi brotin. Þetta fólk vinnur í byggingariðnaði, ræstingum, fiskiðnaði og í þjónustustörfum, t.d. inni á sjúkrahúsunum, svo eitthvað sé nefnt. Það má segja að það haldi þjónustustörfunum uppi. Þátttaka þessa fólks dregur úr þenslu og launaskriði og hjálpar til við að halda verðbólgu þó í þeim skefjum sem vænst er. Mér finnst full ástæða til að brýna menn til að muna að við þurfum á fólki annars staðar frá að halda til að standa undir velferðarsamfélagi okkar.

Við eigum líka að muna að við erum í fyrsta sinn núna, og það er líka athyglisvert, að upplifa góðan hagvöxt og atvinnuleysi samtímis. Það er alveg nýtt í samfélagi okkar. Það er að einhverju leyti skrifað á hagræðingu atvinnulífsins og líka á að fyrirtæki haldi að sér höndum, eftir bæði sameiningu, hagræðingu og annað og vilja sjá til hvernig til tekst. Við eigum líka að skrifa þetta bak við eyrað í umræðunni.

Skuldsetning íslenskra heimila er með því mesta sem þekkist í heiminum og fram undan er stóraukinn aðgangur að fjármagni, fjármagni sem boðið er fram af meiri ákafa en nokkru sinni fyrr og boðin er vaxtalækkun. Sú vaxtalækkun mun að sjálfsögðu étast upp ef verðbólgan helst ekki í skefjum, það verður því að vera meginmarkmið okkar allra að markmiðin sem menn hafa sett sér með verðbólguna geti haldist.

Ég minni ykkur á að við 1. umr. fjárlaga í október var talað um að verðbólgan mundi væntanlega verða 2,8% í ár og færi í 3% eða eitthvað þar yfir á komandi ári. Nú er verið að tala um að verðbólgan sé miklu meiri og geti jafnvel orðið 5%, og sagt er að á fundunum sem voru haldnir í morgun hafi verið hrakspár um allt að 6% verðbólgu, en ég vona að það sé ekki rétt spá. Þar að auki stefnir í aukinn viðskiptahalla og jafnvel er talað um gengisfellingu. Þetta eru ekki góðar kringumstæður eða gott andrúmsloft fyrir ákvarðanir sem verið er að taka á síðustu dögum þingsins.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 1%, tiltölulega óvænt, og það er mjög mikil hækkun í einu en þar var hann að bregðast við afleiðingum þess sem ég var að lýsa.

Í umræðunni fyrir kvöldmatinn var vitnað í fréttir úr í blöðunum í dag um að á einni viku væru farnir 5 milljarðar út úr tekjuhlið sjávarútvegsins vegna gengisbreytinganna. Í útvarpsþætti í gær heyrði ég á tal Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrverandi alþingismanns, þar sem hann var að ræða um hrikalegar afleiðingar gengisþróunarinnar fyrir þá sem eiga í viðskiptum á Bandaríkjamarkaði. Af því ég vék að þessum 5 milljörðum út úr tekjuhlið sjávarútvegsins á einni viku, þá er ekki lengur verið bara að tala um að selja fisk úr landi. Það skiptir okkur öll máli að fyrirtækjum eins og t.d. hugbúnaðarfyrirtæki þessa manns sem er með gífurleg viðskipti og samninga sem voru gerðir löngu áður en þetta kom til, og sama má segja um Marel og fleiri fyrirtæki sem eru mjög mikilvæg í samfélagi okkar, þar sem hefur verið mikil þróun og uppbygging, gangi vel. Það skiptir okkur máli að við verðum ekki jafnháð fiskinum og við höfum verið á undanförnum áratugum.

Þess vegna finnst mér að við eigum öll að hafa nokkrar áhyggjur af því að þróunin frá því við vorum í 1. umr. fjárlaga hefur orðið allt önnur en menn voru að tala um þá. Þær breytingar sem ég hef vikið að og skipta máli fyrir framhaldið hafa orðið á fáeinum vikum.

Annað sem mér finnst athyglisvert við umræðuna í dag er að hún leiðir í ljós gífurlega mikinn mun á flokkunum og það er eðlilegt, því þessir flokkar eru ólíkir. Fólk skipar sér í flokka, ekki út af því hvernig þeim líst á það sem flokkarnir lofa hverju sinni heldur út frá hugmyndafræði og lífsskoðun. Og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er allt önnur en hugmyndafræði jafnaðarmanna. Það er því ekki skrýtið þótt við tökum ekki undir staðhæfingarnar og ljómann sem hefur stafað frá þingmönnunum sem hafa talað hér í dag, eins og Pétri Blöndal og Sigurði Kára Kristjánssyni. Við sem höfum skipað okkur í sveitir jafnaðarmanna höfum allt önnur viðhorf en þeir menn sem hafa skipað sér svo afdráttarlaust í raðir ýtrustu hægri manna og vilja hafa skattana sem allra lægsta og helst að sem mest verði borgað fyrir þjónustu, og að þeir sem hafi mikið eigi að halda áfram að hafa mikið og hinir sem hafa lítið eigi að sætta sig við að hafa lítið.

Jafnaðarmenn sjá þetta öðruvísi. Þeir líta á skattkerfið sem tæki. Skattkerfið er eitt mikilvægasta tæki til að hafa áhrif á hvernig samfélagsgerðin þróast. Skattkerfið er tæki sem er notað til að sporna gegn ofurgjá á milli ríkra og fátækra. Jafnaðarmenn vilja enga gjá. Þar sem óheft markaðskerfi ríkir, án nokkurra viðbragða stjórnvalda, þar verða ríkir ríkari og fátækir fátækari. Við þekkjum slík samfélög, þar sem eiginlega enga félagslega aðstoð er að fá, fólk þarf að greiða fyrir sjúkrahúsþjónustu og þeir sem falla milli stafs og hurðar eru komnir upp á náð og miskunn kirkjunnar eða góðgerðarstofnana. Slíkt samfélag er ekki byggt upp á þann hátt sem við viljum byggja samfélagið upp. Þar er hægt að kaupa sig fram fyrir ef þjónustu er að fá, og þar er hægt að kaupa sér betri þjónustu.

Ég held því fram að enginn stjórnmálamaður á Íslandi vilji að samfélagið þróist með þeim hætti. En það er hægt að grípa til aðgerða, ítrekaðra og endurtekinna aðgerða, þannig að samfélagið verði einn góðan veðurdag þannig. Ef fólk gáir ekki að sér þá er hægt að grípa ítrekað til aðgerða sem leiða af sér að ríkir verða ríkari og fátækir fátækari, jafnvel þó það verði ekki með sama hætti og í þeim samfélögum sem ég vísaði til.

Þess vegna, meðan hinir ungu hægri menn hafa hreykt sér af því að nú væri hátíðisdagur í stjórnmálunum og að sú lækkun sem verður á tekjuskatti sé einhver mesta aðgerð sem gripið hefur verið til síðustu áratugi, skil ég viðbrögð framsóknarmannanna vel, að koma hlaupandi í ræðustól og verjast, vegna þess að sjálf trúi ég því enn þá að munur sé á hægri hluta Sjálfstæðisflokksins sem ræður ferð núna og hefðbundins Framsóknarflokks, og ég leyfi mér að hafa þá skoðun.

Áður en ég vík að tekjuskattsbreytingunni sem nú er til umræðu ætla ég að rifja upp umræðu sem varð fyrir tveimur árum þegar tekjuskattur á lögaðila var lækkaður. Þá gagnrýndum við að farið var miklu neðar með tekjuskattinn en þörf var á. Hræðslupólitíkin var sú að lækka yrði skatt á lögaðilum, fyrirtækjum, til að afstýra því að þau færu úr landi, en fyrirtæki fara úr landi til landa þar sem lægri skattar eru. Á sama tíma var hvergi í nokkru iðnríki lægri skattur en 24–25% á fyrirtæki, samt sem áður var hér farið niður í 18%. Reyndar náðust inn peningar með því að hækka tryggingagjaldið sem hitti litlu fyrirtækin fyrir, sprotafyrirtækin, með mannahaldið, sem höfðu litlar tekjur en voru mjög mikilvæg í þróun nýrra atvinnumöguleikja og nýrra fyrirtækja og alls hins nýja sem við vorum búin að tala um að byðist m.a. með EES-samningnum.

Það er mjög fróðlegt að hugsa til þess að tekjuskattar fyrirtækja, heildarskatttekjur hins opinbera af vergri landsframleiðslu árið 2000, þegar við fengum síðast upplýsingar varðandi skattana, voru 31,1% samanlagt ef tekið er mið af öllum sköttum hins opinbera, en samanlagt í öllum OECD-ríkjunum voru skattarnir að meðaltali 37,4%. Við erum því að tala um 6,3% mun og þarna leyfi ég mér að taka heildarskatttekjur hins opinbera á Íslandi og leggja þær saman við skatttekjur ríkisins. Þarna kemur fram að við erum með mun lægri skatttekjur áður en breytingarnar sem ég var að lýsa komu til, áður en við lækkum skatta á lögaðila jafnmikið og ég var að lýsa, og, við þykjumst þurfa og hafa burði til að vera með miklu lægri skatta en ríkin sem við erum að bera okkur saman við almennt í Evrópu.

Ég ætla að láta þetta nægja um samanburðinn við OECD, en vek athygli á því að þær tölur sem ég vísa til eru frá árinu 2001 en síðan þá hafa verið gerðar talsverðar breytingar á sköttum til lækkunar.

Í dag var aftur og aftur spurt úr þessum ræðustóli: Hvað vill Samfylkingin? Í hvert skipti sem einhver þingmaður Samfylkingarinnar hafði talað og gagnrýnt þá leið sem ríkisstjórnin vildi fara var spurt: Hvað vill Samfylkingin?

Það hefur margoft komið fram í ræðum manna í dag en ég ætla að nota tækifærið og draga það saman. Samfylkingin vill nota svigrúmið, eins og ríkisstjórnin, þó við gerum okkur grein fyrir því að nú þarf svolítið að vera á bremsunni og ekki vera alveg jafnviss um að það verði jafnmikil sveifla fram undan og menn hafa talað um, en okkur sýnist þó vera nægilegt svigrúm til þess að gera breytingar. Við teljum að nota eigi það svigrúm til að lækka matarverðið og nota þá milljarða sem ríkisstjórnin vill nota í lækkun tekjuskattsins til þess að lækka matarverðið, þ.e. lækka virðisaukaskatt á matvæli.

Við teljum að það skipti verulegu máli, því fyrir utan að þá væri verið að gera breytingar á skattheimtu ríkisins þannig að það kæmi öllum heimilunum í landinu til góða hefur það líka áhrif á vísitöluna, a.m.k. 0,8% áhrif á vísitöluna, sem skiptir mjög miklu máli, ég tala ekki um ef verðbólgan er eitthvað að fara úr böndunum og það hefur áhrif á lán. Það hefur líka áhrif á persónuafsláttinn og ég nefni það sérstaklega af því það hefur verið gagnrýnt af okkur í dag að persónuafsláttur muni ekki fylgja vísitölunni miðað við það sem fram hefur komið hjá stjórnarmeirihlutanum. Það mundi vinnast við að fara okkar leið, að ef verðbólguspárnar sem ríkisstjórnin vinnur með í dag og miðar tillögur sínar við mundi breytingin á vísitölunni miðað við okkar leið hafa nærri 1% mun á vísitölunni og vega á móti því að persónuafslátturinn hækkar ekki nægilega mikið.

Ég dreg hliðaráhrifin sérstaklega fram því að til viðbótar við að lækka útgjöld heimilanna, sem er veruleg bót fyrir alla, bæði fyrir þá sem hafa mikið og þá sem hafa lítið, bæði fyrir þá sem borga skatta og þá sem hafa svo lág laun að þeir borga ekki skatta, mundi það líka rétta af þennan hlut með því að lækka verðbólguna og það mundi nálgast þá hækkun persónuafsláttarins sem ríkisstjórnin er með. Við viljum að venjulegt heimili sé undanþegið eignarskatti og munum taka á því með breytingartillögum á frítekjumarkinu við afgreiðslu málsins á morgun.

Þetta er okkar leið. Við teljum hana betri en leið ríkisstjórnarinnar. Hún er ítarleg. Hún er jafnítarleg og leið ríkisstjórnarinnar, en hún er önnur.

Það hefur komið fram í öllum ræðum okkar við þessar umræður, við fyrri umræður í haust og við höfum reyndar haft okkur mjög í frammi og flutt tillögur um það á liðnum árum að auka barnabæturnar. Ég tek það sérstaklega fram að við munum styðja þá hækkun sem þar verður.

Það hefur verið mjög merkilegt að hlusta á umræður um barnabæturnar í dag. Íslenskar konur eignast flest börn í Evrópu. Þær eignast fleiri börn en kaþólsku írsku konurnar, þær eru komnar upp fyrir það, liggja í tæpum tveimur börnum. Við erum líka með flestar konur á vinnumarkaði á aldrinum 16–64 ára. Það er mjög athyglisvert að flest börn eru í íslenskum fjölskyldum. Þetta vekur athygli víðast hvar þar sem verið er að skoða þessi mál, ekki síst þetta sem ég nefndi með írsku konurnar og kaþólikkana.

Við erum líka með flestar konur á vinnumarkaði í aldurshópnum 16–64 ára. Þetta þýðir auðvitað að við eigum að koma mjög til móts við fjölskyldurnar í landinu. Við viljum halda áfram að eignast börn. Það þarf nefnilega 2,10 börn á konu til þess að standa undir framtíðarskuldbindingunum. Það er viðurkennt í öllum útreikningum Evrópu. Við erum komin undir það því við erum í tæpum tveimur börnum. Þess vegna á það að vera sérstakt pólitískt markmið hverrar ríkisstjórnar að hlúa að fjölskyldunni í öllum aðgerðum sínum þannig að fólk hætti ekki að eiga börn. Í Þýskalandi eignast bara helmingur kvenna á vinnumarkaði börn. Hinn helmingurinn hefur ákveðið að eignast ekki börn vegna þess að ekki sé unnt að samræma veru á vinnumarkaði, heimilishald og barnaumönnun. Við erum enn þá þannig þenkjandi Íslendingar að við ætlumst til þess af okkur að við getum bæði verið fjölskyldufólk og verið á vinnumarkaði eða eiga „carrier“ eða hvað það er sem fjölskyldan kýs.

Hér hefur margoft verið farið yfir það hvort barnabæturnar hafi lækkað eða hækkað. Það er náttúrlega alveg ljóst að búið er að fara hörmulega með barnabæturnar. Ég er með svar frá hæstv. fjármálaráðherra frá því skömmu fyrir kosningarnar í fyrra þar sem ég óskaði eftir úttekt á því hvernig skattarnir lægju, því þá var umræða komin í gang um að fara þyrfti að lækka skatta. Umræðan snerist um hvernig ætti að gera það, hvort hækka ætti persónuafslátt eða skattleysismörk eða deila flatri prósentutölu á alla eins og valið hefur verið að gera hér. Svarið frá fjármálaráðherra var mjög athyglisvert og var mjög til umræðu í kosningabaráttunni, vegna þess að það leiddi í ljós hversu vondur kostur það væri að fara í þá flötu tekjuskattslækkun sem nú er verið að lögfesta.

Spurt var um fleira, m.a. um þróun barnabóta frá árinu 1995. Til að þær upplýsingar liggi líka fyrir í umræðunni ætla ég að benda hv. þingmönnum á að þetta er á þskj. 1312 frá 128. löggjafarþingi. Í því kemur fram að á verðlagi ársins 2002 var almennur tekjuskattur sem tekjur ríkisins 1995 tæpir 34 milljarðar og barnabæturnar voru rúmir 6 milljarðar, sem sagt 6 milljarðar af þeim tæpu 34 milljörðum sem ríkið innheimti í tekjuskatt. Ef maður gæfi sér að venjulega væri eitthvað samhengi þarna á milli eða eftir því sem ríkið fengi meira í tekjuskatt — já ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal hristir höfuðið að það sé ekki samhengi þar á milli, hann vill heldur horfa á aðra hluti eins og þjóðarframleiðslu eða guð veit hvað. (Gripið fram í.) Ég verð þá að benda á að í svarinu árið 2002 var t.d. almennur tekjuskattur farinn að skila ríkinu 52 milljörðum, en þá voru líka barnabæturnar komnar niður í 4,8 milljarða.

Það er alveg nöturlegt að hugsa til þess að hér hafi menn komið upp, fólk úr félagshyggjuflokkum, og reynt að mæla því bót að barnabæturnar hafi lækkað eins og raun ber vitni. Aftur og aftur hefur forsendunum verið breytt fram og til baka til þess að hagræða. Fyrst var flöt skerðing 10%, svo 5% og núna þegar almennur tekjuskattur er 66,7 milljarðar liggja barnabæturnar í 5,4 milljörðum. Við erum komin í helmingi meiri tekjur bara úr almenna tekjuskattinum en veitum 5,4 milljarða í barnabætur.

Tölurnar draga fyrst og fremst fram hvernig tekjur ríkisins þróast, af því þetta er bara tekjuskatturinn og við vitum að verið er að taka tekjur á öllum mögulegum öðrum sviðum. Tölurnar sýna fyrst og fremst hugarfarið til barnafólksins, vegna þess að þó menn hafi á einhverjum tíma ákveðið að barnabæturnar ættu að fara eftir einhverjum tekjum þarf að taka tillit til stöðugra breytinga í samfélaginu. Það er talsvert athyglisvert að menn hafi séð það helst að ná sér í aukapening með því að vera með minna fjármagn í barnabætur og vaxtabætur, einmitt það sem kemur ungu barnafólki best hjá barnaþjóðinni sem á alls ekki að hætta að eiga börn.

Það er líka mjög athyglisvert og var mjög til umræðu fyrir ári hvernig svarið birtist um skiptingu þess ef farið yrði í aðgerðir, hvað mundi gerast ef 1,5 milljarðar yrðu notaðir í skattbreytingu eða ef 5 milljarðar yrðu notaðir, hvernig það kæmi út fyrir hópana ef farið væri út í hækkun á persónuafslætti og hvernig kæmi það út með því að lækka almenna tekjuskattshlutfallið. Það sem kom í ljós var það sama og hefur gerst núna, að efri hóparnir, skipt er niður í tíu hópa í svarinu, 9–10 þús. manna hópa, og auðvitað fara hærri hóparnir best út úr því að fara í almenna tekjuskattshlutfallið. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra og er hægt að lesa í þskj. 1312 frá 128. löggjafarþingi.

Fyrir utan þetta hlýt ég að vekja athygli á því sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um aukatekjur ríkissjóðs. Þar er bent á að á þessu ári og yfir á það næsta hækka aukatekjur ríkissjóðs sem nemur rúmum 8 milljörðum og á móti er boðuð skattalækkun upp á 4 milljarða. Ríkissjóður er því ekki, eins og fram hefur komið í dag, að láta af hendi til fólks sem verður með meira á milli handanna, það er bara látið (Gripið fram í.) með vinstri og tekið með hægri. (Gripið fram í.) Engar verðlagsbreytingar á barnabætur, engar verðlagsbreytingar á vaxtabætur, engar verðlagsbreytingar á því sem skiptir máli, bara á því sem á að taka. Þannig má setja þetta upp, virðulegi þingmaður, vegna þess að skattstefna er pólitík. Skattstefna er ekki stærðfræði. Það fer eftir því hvernig þú ferð með skattana, hvernig þú beitir þeim, af því skattheimta er tæki.

Þá ætla ég, virðulegi forseti, að víkja aðeins að matarskattslækkuninni sem við í Samfylkingunni hefðum viljað fara í. Ég ætla reyndar að byrja á því sem hefur þótt svo skemmtilegt í dag, umræðan um símsvarann hjá Samfylkingunni sem hafi sagt að Samfylkingin ætlaði ekki að breyta virðisaukaskattskerfinu. (Gripið fram í: Það var strákur.) Strákur eða stelpa eða hvað það var. Þetta var náttúrlega ekki umræða sem sæmir sér í alvarlegri skattaumræðu, en ég þori ekki frekar í þá umræðu því ég er svo hrædd um að þá yrði sagt að ég talaði niður til hv. þingmanna. En ég ætla aðeins inn í þetta.

Þannig er að í nokkur ár er ég búin að hreyfa matarverðinu. Það byrjaði fyrir u.þ.b. fjórum árum með fyrirspurn um þróun matvælavísitölunnar. Sú þróun gaf til kynna að við færum mjög halloka í matarverðinu, nema við hefðum verið ofboðslega lág í matarverði miðað við aðrar þjóðir árið 1990. Næsta skref var því að skoða hvernig matarverðið var á Norðurlöndunum og í Evrópu á þeim tíma og hvernig það hefði þróast. Athyglisverðast var að matvælavísitalan var sett árið 1996 á 100 sem gerði það að verkum að frá árinu 1996 var hægt að bera allt saman mjög vel. Þegar þetta var skoðað og notast við þær tölur sem fáanlegar eru hjá Hagstofunni var ljóst að það sem fólk hafði talið, sum sé að matarverðið væri miklu hærra hér en annars staðar, var staðreynd. Matarverðið á Íslandi og í Noregi var langtum hærra en nokkurs staðar annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu, allt upp í 69% hærra, en yfir 50% hærra að meðaltali en meðaltal Evrópulandanna.

Þetta olli nokkrum úlfaþyt og þegar sú er hér stendur setti fram vandaða þingsályktun um hvernig hægt væri að taka á þessu, láta kanna af hverju matur væri miklu dýrari hér og hvaða leiðir væru til úrbóta, þá var jafnvel brugðist þannig við að þrætt var fyrir að svo væri. Það er því mjög áhugavert og til umhugsunar að fyrir viku eða hálfum mánuði kom frétt þar sem vísað er til Jyllandsposten í Danmörku um niðurstöður frá Eurostat um að matarverð í Noregi og á Íslandi væri 56% hærra en annars staðar í Evrópu, Norðurlöndin væru dýrust en Ísland og Noregur langdýrust og Finnarnir með eitthvað um 23% hærra verð en meðaltalið. Jafnframt birtist sú gleðilega frétt að samkeppnisstofnanir þessara landa ætluðu að setja upp vinnuhóp til að skoða hvernig hægt væri að beita sér til að ná matarverðinu niður.

Það var dálítið skemmtilegt að allur fréttaflutningur af þessu var eins og fréttastofurnar væru að heyra þetta í fyrsta sinn en hér á Alþingi hefur þetta verið rætt alloft, ekki síst í kosningabaráttunni, þannig að þetta kom okkur ekki á óvart.

En það sem kom mér skemmtilega á óvart þegar ég var að ræða þetta var hvar ég fékk undirtektir og ég mun koma betur að því.

En aftur að því hvort flokkarnir hefðu það á stefnuskrá sinni að breyta virðisaukaskattskerfinu. Ég er búin að grafa það upp að skömmu eftir áramót 2003 voru lagðar allmargar spurningar fyrir þingflokkanna, m.a. þessi: Hefur flokkurinn á stefnuskrá sinni að breyta virðisaukaskattskerfinu? Svarið frá Samfylkingunni var nei, vegna þess að á þeim tíma var það ekki svo.

Það væri fróðlegt að vita hverju Sjálfstæðisflokkurinn svaraði vegna þess að mér er ekki kunnugt um að nákvæmlega á þeim tíma hafi Sjálfstæðisflokkurinn haft á stefnuskrá sinni að breyta virðisaukaskattskerfinu. En síðar á því vori voru bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn með hugmyndir um að lækka virðisaukaskatt af matvælum um 7%, ef ég man rétt.

Á þeim tíma var þetta hárrétt svar vegna þess að við vorum ekki með neinar hugmyndir um að breyta virðisaukaskattskerfinu. En sama vetur var samþykkt tillaga þeirrar er hér stendur um að láta gera úttekt á hvað ylli svo háu matarverði, gera samanburð á Norðurlöndunum, hvað það væri í umhverfi framleiðslunnar eða í umhverfi innflutnings sem gerði það að verkum að matarverð hér væri svona miklu hærra.

Þá kem ég að því sem var svo áhugavert og sem mér finnst mjög mikilvægt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggi eyrun að, og það er að sú er hér stendur átti bandamann í salnum þegar hún flutti málið. Það var vegna þess að þegar dregið var fram hve mjög matarverð hefði breyst í löndunum sem gerðust aðilar að Evrópusambandinu var málflutningurinn strax tengdur því að Samfylkingin vildi fara í Evrópusambandið, því þá mundi matarverðið lækka. En ætlun þeirrar er hér stendur var að draga fram hvað ylli hinu háa matarverði og að tekið yrði á því.

Það vildi hæstv. þáverandi forsætisráðherra líka. Og hann lýsti því yfir hér í þessum sal, og mér þætti vænt um, virðulegi forseti, ef Sjálfstæðisflokkurinn legði nú eyrun að, þar sem foringi þeirra var þá forsætisráðherra, en hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra lýsti því yfir: Þetta getum við gert sjálf. Við getum sjálf lækkað matarverðið, það þarf ekki í eitthvert Evrópusamband. — Og það er hárrétt.

Í Danmörku, þar sem er einna lægsta verð á mat, er 25% virðisaukaskattur. Þeir eru bara með allt annað kerfi og hafa væntanlega lækkað önnur gjöld hjá sér, e.t.v. strikað út vörugjöld eða annað sem hafði áhrif á matarverðið.

En hæstv. þáverandi forsætisráðherra sagði: Við getum gert þetta sjálf. Hann gerði sér grein fyrir að til að gera þetta sjálf þyrftum við að vita hvað veldur þessu. Og ég geri mér fulla grein fyrir að málið var afgreitt úr nefnd veturinn fyrir kosningar fyrir tilstuðlan hæstv. þáverandi forsætisráðherra. Málið hefði aldrei verið afgreitt og samþykkt af Alþingi nema vegna stuðnings hans. Lagt var til að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands yrði falið að skoða með hvaða hætti matarverðið myndast í framleiðslunni og í innflutningi, og hvað ylli háu matarverði.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli: Staðfest var að matarverð er 50% hærra hér en meðalverð í löndum Evrópusambandsins og þar er ekki átt við meðalverð landanna í Suður-Evrópu. Þetta er meðalverð allra landa, líka með löndunum í Norður-Evrópu, þeim þremur Norðurlöndum sem þar eru talin með. Það voru bara Noregur og Sviss sem toppuðu okkur og nú erum við og Noregur komin í 56%, þ.e. enn þá hærra verð en áður.

Í skýrslunni kemur fram að ýmsar almennar ástæður stjórna þessu hjá okkur, aðallega smæð markaðar og stjórn efnahagsmála, en ekki síst það er varðar landbúnaðinn, því opinber stuðningur er enn með því hæsta sem gerist hjá OECD og svo vísað sé til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans þá greiðum við árlega 12–13 milljarða með landbúnaði. Samkvæmt skýrslunni er helmingurinn tekinn í gengum skatta og veittur áfram í stuðningi og svo annar helmingur í matarverðinu. Þeir segja það vera miklu verri kost, betra væri að fara í beingreiðslur og halda öðruvísi á málum.

Meginástæðurnar eru samkeppnismál, t.d. smæð markaðar. Hvernig er þá hægt að stækka hann? Með tollabreytingum, með því að afnema innflutningshöft í ríkari mæli en gert hefur verið, og með breytingum á stjórn efnahagsmála, gengi, tollum, sköttum og vörugjöldum. Ef við tryggjum samkeppni, opnum meira gagnvart viðskiptum við útlönd, breytum landbúnaðarstuðningi úr matarverði í beinstuðning þá getum við náð matarverðinu niður. Þetta kostar, en þetta er kerfisbreyting sem þarf að fara í.

Því miður kom skýrslan fram á allra síðustu dögum þingsins sl. vor og hefur ekki enn fengist rædd á Alþingi vegna þess að kerfi okkar á Alþingi er þannig að skýrsla sem lögð var fram á síðasta þingi fæst ekki rædd á því næsta. Því verður annaðhvort að biðja um sérstaka utandagskrárumræðu, sem er verri kostur, eða setja málið í þingmálabúning til að fá umræðu um það.

Ég hlýt að vísa til þessa eftir umræðuna í dag vegna þess að hvað matarverðið og tillögur okkar í Samfylkingunni varðar hefur umræðan verið alveg fáránleg. Slíkt er ekki sæmandi, að þingmenn komi hér, taki skattalækkunina, barnabæturnar og aðrar breytingar eins og vaxtabætur og örlitla hækkun á persónuafslætti, tíni þetta saman og segi: Með þessu fæst svona mikil úrbót. Af því að við erum að tala um að veita sömu fjárhæð til heimilanna en á miklu réttlátari hátt, þ.e. í gegnum matarverðið. Við styðjum barnabæturnar, vaxtabæturnar og persónuafsláttinn, við erum ekki að tala um matartillöguna eina á móti öllu sem ríkisstjórnin er að gera, en við erum að tala um hvernig maður beitir sköttunum sem tæki.

Ég sakna þess í umræðunni í dag — og það er auðvitað vita gagnslaust klukkan níu um kvöld að reyna að bæta í þá umræðu — að í allt of litlum mæli hefur verið rætt um skattkerfisbreytingarnar á þeim grunni sem á að gera það, nefnilega sem tæki til jöfnunar.

Þá kem ég að því sem ég hóf mál mitt á. Þegar löndin sem vísað var til í umræðunni í dag eru skoðuð erum við skattaparadísin í Evrópu. Það er alveg dæmalaust að 29 þúsund manns séu með að 100 þús. kr. í tekjur en samt sé hægt að ná tveimur milljörðum í skatta af því fólki, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í dag. Það er umhugsunarefni með hvaða hætti ríkisstjórnin velur að beita þessu tæki, og þá komum við að því sem ég var að tala um.

Pólitík er lífsskoðun, pólitískir flokkar eru ólíkir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki alltaf verið últra hægri flokkur, síður en svo, Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum getað hreykt sér af því að vera frjálslyndur hægri flokkur með ákveðna samfélagssýn. Því er ekki lengur að skipta og í umræðunni í dag hafa talsmenn hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum algjörlega ráðið ferðinni í umræðunni. Og þegar hægri öfl ráða er alveg ljóst að sköttum er beitt sem tæki til að hygla þeim sem meira hafa og gera minna fyrir þá sem minna hafa. Það er niðurstaða umræðunnar í dag og sumir fagna því ákaft og kalla þetta hátíðisdag, aðrir reyna að verjast, en þetta er niðurstaða umræðunnar í dag, virðulegi forseti.