131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið gaman að heyra í hv. þm. Pétri Blöndal. Ég er alltaf hrifin af málflutningi hans. Hann er mjög tær í sinni pólitík. Hann er mjög skýr í sinni framsetningu. Hann reynir aldrei að fela sig á bak við neitt. Hann hefur sína pólitík á hreinu. Hann er stoltur af því að hafa náð mjög miklu fram eftir að hann kom inn á þing í sínum flokki. Satt best að segja þá skrifa ég þessa skattalækkun sem er að fara fram núna á það að hv. þm. Pétur Blöndal hefur náð fram pólitískum vilja sínum. En þá ætla ég jafnframt að hreykja mér nokkuð, alþýðuflokkskonan sem hér stendur, vegna þess að ef margir úr Samfylkingunni og margir þingmenn Samfylkingarinnar mundu vilja fara leið Péturs Blöndals þá hefur það gerst að þeir hafa allir valið að fylgja þeirri leið Rannveigar Guðmundsdóttur að lækka matarverð og með því að byrja á því að lækka matarskatt.