131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú fór hv. þingmaður illa með allan Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að ég veit nú ekki betur en að stefna mín í skattamálum sé bara nákvæmlega sú sama og stefna flokksins. Því eru allir sjálfstæðismenn mjög hrifnir af þessu og ég veit ekki betur en að Framsókn sé mjög ánægð með þetta líka. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins ná fram stórhækkun á barnabótum. Það er gott mál. Það eru allir ánægðir með þetta, bara allir og allir ættu að vera hamingjusamir alla daga. (Gripið fram í.) Þó að ég sé mjög stoltur yfir því að menn álíti að þetta sé allt skrifað af mér og allt mér að þakka þá stend ég ekki undir þeirri ábyrgð, því miður.

En hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni sem var mjög einföld. Er hún á móti því að fella niður eignarskatt á gamlar ekkjur? Er hún á móti því að lækka tekjuskatt og gera fólki kleift að afla meiri tekna? Er hún á móti því að hækka barnabætur sem styrkja stöðu fjölskyldna með mörg börn? (LB: Ertu á móti góðu veðri?)