131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:14]

Gunnar Birgisson (S):

Frú forseti. Við ræðum enn og aftur þetta ágæta frumvarp og væri gaman að framlengja þingið um eina eða tvær vikur alveg fram að jólum til að ræða það, slíkt er fagnaðarefnið. (Gripið fram í: Jólaboðskapur.) Jólaboðskapur, það er ekki oft sem menn fá slíkar jólagjafir í landinu eins og verið er að gefa núna.

Það má eiginlega skipta þessu í þrjá hópa; stjórnarliða sem koma með frumvarpið, Vinstri græna sem vilja hækka skatta og Samfylkinguna sem vill líka hækka skatta og auka samneyslu, báðir hóparnir. Verið er að lækka tekjuskatt einstaklinga. Núverandi ríkisstjórn hefur verið dugleg í því og lækkað hann verulega og reiknar með að hann fari nú úr 25,7% niður í 21,75%, en ofan á það kemur auðvitað útsvar sveitarfélaganna. Það er því verið að tala um að lækka þetta úr 38% niður í 34%.

Mikið hefur verið rætt um hækkun barnabóta í tvennu lagi upp á 2,4 milljarða og einnig eignarskatt einstaklinga og lögaðila sem reiknað er með að lækki tekjur ríkissjóðs og felli þær út upp á 3,7 milljarða. Nú þegar hefur verið ákveðið að fella út sérstakan tekjuskatt og lækka erfðafjárskatt.

Ef maður fer yfir skattana, það þarf svo sem ekki að fara yfir þá, stjórnarliðar og aðrir hafa farið margoft yfir málið í dag, en þeir sem borga mest í eignarskatt eru á lægstu tekjubilunum. Einnig borga þeir sem eru komnir yfir sextugt eignarskatta í dag. Það er ótrúlegt að flokkur eins og Samfylkingin skuli vera á móti þessu. Eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson benti á áðan var við 1. umr. ekkert talað um eignarskattana af hálfu Samfylkingarinnar, en nú tala þeir tungum tveim um eignarskattinn. En þetta er ein mesta bylting í skattamálum nokkurn tímann. Stjórnarandstæðingar hafa reynt að slá ryki í augu þeirra sem á þetta hlusta, að verið sé að hækka skatta þegar verið er að færa þjónustugjöld að verðlagi, af því þeir skilja ekki að krónan er ekki jöfn í dag og fyrir tíu árum. Það er málið.

Við höfum reynt að kenna þingmönnum Samfylkingarinnar þetta en ekki tekist þrátt fyrir mjög nánar útskýringar. (Gripið fram í.) Síðan er kannski rétt að fara yfir tillögur þessara ágætu flokka. Ef við förum yfir tillögur Vinstri grænna, þeir eru alveg harðir og hreinar línur hvar þeir liggja. (Gripið fram í: … tekju- og eignarskatt á …) Það er alveg á hreinu hvað þeir vilja. Þeir vilja náttúrlega hækka skatta og ótrúlegt hvað þeir fá mikið í skoðanakönnunum og öðru, það minnkar nú alltaf þegar kemur að kosningum sem betur fer, en þetta er flokkur sem vill hækka skatta og auka samneyslu. Tillögurnar við fjárlög 2005 eru að hækka skatta um 9,2 milljarða, og hvernig á að eyða þessu? Þeir vilja ekki lækka neitt, þeir vilja setja 670 millj. til háskólanna, setja í Háskóla Vestfjarða 25 millj., framhaldsskólana 330 millj., náttúruminjasöfn 20 millj., jöfnunarsjóð 700 millj., lífeyristryggingar 560 millj., barnabæturnar strax 2.400 millj., vaxtabætur 300 millj., ferðamál 20 millj. og minnka arðgreiðslur frá opinberum stofnunum upp á 1 milljarð. Þjóðminjasafn 23 millj., safnasjóður 54 millj., Ríkisútvarpið 210 millj., jöfnun ferðakostnaðar íþróttafélaga 150 millj., þróunarmál og alþjóðastarf 140 millj., skógrækt 70 millj., hækkun til Landspítala upp á 600 millj., hjúkrunarheimili 150 millj., heilsugæsla 236 millj. og ferðamál 30 millj.

Þetta eru tæplega 8 milljarðar í aukningu á samneyslu, svona einn, tveir og þrír á einu ári. Menn vita því alveg hvar þeir hafa Vinstri græna, þeir vilja hækka skatta og auka samneyslu. Ég held að ágætir landsmenn ættu aðeins að hugsa um hvað þessir menn eru að segja. Þeir eru einmitt að segja: Aftur til fortíðar, eins og vinstri menn. Eina sem þeir kunna er að hækka skatta og auka samneyslu. Alveg hreinar línur, ekki lækka skatta. Þeir vilja ráðskast með fjármuni fólksins. Þeir treysta ekki fólkinu að fá þetta beint. Nei, það má ekki. Þeir vilja komast með krumluna í þá og geta svo skammtað út í rólegheitum. Þetta er stefna Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Það er alveg á tæru.

Síðan komum við að hinum stjórnarandstöðuflokknum sem hefur tjáð sig mjög í málinu, sem er Samfylkingin. Menn eru ekki alveg klárir á því hver er hvað þar, og hvers er hvurs. Hverjar eru tillögur þeirra varðandi fjárlög 2005? Það hlýtur að sýna stefnu flokksins, m.a. í skattamálum. Þeir hafa komið upp trekk í trekk með tölur á gömlu verðlagi og hvað þetta hafi hækkað mikið og þykjast vera með stórasannleik í höndunum. Ég sakna annars útherja þeirra, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, sem hefur farið mikinn í þessum málum og talaði fyrir flestum tillögunum.

Það var gaman að dunda við að fara yfir breytingartillögur þeirra við fjárlögin árið 2005. Þar er stefna Samfylkingarinnar að lækka virðisaukaskatt á matvæli um 1,5 milljarða, setja 470 millj. í Háskóla Íslands, 100 millj. í Háskólann á Akureyri, 100 millj. í Kennaraháskólann, 330 millj. í framhaldsskólana, í jöfnunarsjóðinn 700 millj., í lífeyristryggingar 560 millj., hert skattaeftirlit 200 millj., barnabætur 2.400 millj. Eins og Vinstri grænir vill Samfylkingin gera það strax. Vaxtabætur 300 millj., Samkeppnisstofnun 100 millj., 80 millj. í Landhelgisgæsluna, 60 millj. í Barnaverndarstofu, 30 millj. í Lýðheilsustöð o.fl. og í hjúkrunarrými 200 millj. Þetta eru 7,2 milljarðar í aukningu á samneyslu. Svo talar þetta fólk um aðhaldsleysi í ríkisfjármálum.

Virðulegur forseti. Er hægt að vera með svona málflutning? Það liggja fyrir 7 milljarðar í aukningu á samneyslu en á móti vilja þeir ekki lækka tekjuskatt. Það er engin tillaga um persónuafslætti, hvorki með launavísitölu, lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu eða neinu. Fresta því að lækka tekjuskatt. Ekki lækka tekjuskatt upp á 4,7 milljarða. Það er nákvæmlega stefnan. Þeir ætla ekki að lækka skatta, þeir ætla að auka samneysluna. Hvað segja þeir meira? Jú, þeir ætla að koma með einfalda skipun og lækka útgjöld ráðuneyta um 600 millj. Síðan á að fresta yfirfærslu fjárheimilda frá ráðuneytum upp á 5 milljarða. Ég átta mig ekki á því hvernig það er gert því ef ráðuneytin hafa möguleika á að spara er einmitt hvatinn að geta fært þetta á milli ára. Það er hvatinn, annars er enginn hvati til sparnaðar. En það má ekki. Forsjárhyggjan skal alltaf vera í fyrirrúmi. Það er eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði, að gamla Alþýðubandalagið væri komið til valda, það er nú þannig.

Síðan vilja þeir lækka risnu og ferðakostnað upp á 600 millj. Sennilega hætta þá í einhverju alþjóðlegu samstarfi, hætta að ferðast innan lands eða fara á reiðhjólum eða einhverju slíku eins og R-listinn vill, að menn ferðist innan borgarinnar á reiðhjólum. Síðan ætla þeir að lækka sérfræðikostnað um 1.300 millj. Það er búið að fara í gegnum það mál, það er eins vitlaus hugmynd og mest má vera.

Þetta eru tillögur stjórnarandstöðunnar. Svo koma þeir og fjargviðrast yfir skattalækkun ríkisstjórnarflokkana, þ.e. að við látum fólkið hafa peningana beint án þess að það fari í krumlu ríkisins, að þeir fari beint í vasa fólksins og það ráði hvernig það eyði þeim. Þetta er lykilatriði. Lykilmál. En forsjárhyggjuflokkarnir vilja fá peningana og dreifa þeim svo.

Það þarf eiginlega ekkert að segja meira um þetta. Ég held að þetta sé alveg kristalklárt. Búið er að fara mjög vel í gegnum tekjuskattslækkunina um 1% og síðan 2% árið 2007 og eignarskattinn og barnabæturnar sem eru 1.200 millj. 2006 og svo 2007. Fólkið fær því upp á þriðja tug milljarða beint í vasann sem það ákveður hvað það gerir við, ríkið er ekki að skammta því hvert það fer.

Ég ætla ekki að fara nánar yfir það, en það er samt gaman að þessum flokkum. Hv. þingmenn þeirra í efnahags- og viðskiptanefnd báðu um alls konar skattaprósentur, útreikninga og upplýsingar um hvað eignarskatturinn hefði verið ef notuð hefði verið sama álagningarprósenta árið 1990 þegar vinstri stjórnin var við völd. Það voru 6,5 milljarðar. Það var eignarskattur, sérstakur eignarskattur og svo einhver annar sem var kallaður ekknaskattur. Þeir vildu hafa þetta allt saman en núna þurrka þeir þetta út. Maður hafði ekki trú á því, eins og ég hef sagt oft í þessum ræðustóli, fyrir sex, sjö árum að það yrði núll eignarskattur eftir næsta ár. Það er álagning á næsta ári. Búið. Það er því auðvitað gaman að ræða svona mál.

Hvers vegna er þetta hægt? Jú. Vegna góðrar stjórnunar á landsmálum. Annars væri þetta ekki hægt. Út af hagvexti, gífurlegum hagvexti og verðmætasköpun í samfélaginu sem skilar sér bæði til einstaklinganna og hins opinbera, annars væri þetta ekki hægt.

Ég tala nú ekki um það sem Vinstri grænir vilja. Maður hefur hlustað á tillögur þeirra í atvinnumálum, að virkja smálæki og síðan eiga menn að prjóna húfur og vettlinga og tína fjallagrös. Það er sem sagt aðalatvinnuþróunin á landsbyggðinni ef þeir fengju einhverju um ráðið. Þeir hljóta að vera ánægðir eftir að búið er að loka verksmiðjunni í Mývatnssveitinni, þeir hljóta að kætast mjög yfir því.

Þetta er grundvallarágreiningur á milli stjórnarflokkanna og t.d. Vinstri grænna. Það væri ekki mikil atvinna í landinu ef þetta fólk réði. Hvernig var þetta þegar það réði þegar kaupmáttarhrapið var mest 1989 og 1990? Þannig er þetta, frú forseti.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um málið. Ég ætla að samfagna með félögum okkar í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og landsmönnum öllum. Hér er tímamótamál á ferðinni, gleðiefni og góð jólagjöf til landsmanna.