131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:35]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minnir mig á góðan predikara þegar hann talar úr stólnum. Það er ljóst að landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá 2003 fjallar m.a. um að lækka (Gripið fram í.) virðisaukaskatt á matvæli og endurskoðun á kerfinu. Hið sama er að finna í stjórnarsáttmálanum sem hv. þingmaður getur kynnt sér.

Stjórnarandstaðan hefur reynt að gera mál úr því að ríkisstjórnin hafi fært þjónustugjöld að verðlagi og þó ekki alveg. Það hefur orðið raunlækkun á flestum gjaldanna. Þar sem hv. þingmaður býr í Vestmannaeyjum og er formaður bæjarráðs þá er vert að skoða hvort engin gjöld hafi hækkað þar. (Gripið fram í.) Ég trúi því ekki að þar séu alltaf sömu gjöldin. (LB: Af hverju talar þú alltaf um allt aðra hluti?) Virðulegi forseti, ég er með orðið.

Auðvitað erum við hamingjusöm. En það er gaman að sjá marga hv. þingmenn Samfylkingarinnar hoppa í kringum stjórnarliða, sem eru samstæður hópur. Þá langar hálfpartinn til að vera með en komast ekki inn. Sá er munurinn. Þeir eru ekki með í veislunni og eru á móti henni. Ég held að landsmenn allir ættu að vera klárir á því eftir þessar ræður að stjórnarandstæðingar eru á móti þessum skattalækkunum.