131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:43]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ljóst, og við vitum það, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti stóriðju. Það er ljóst. Það kom fram og hefur komið fram áður. Það er ekkert nýtt í því. En það kemur líka fram í tillögum þeirra vegna fjárlaga ársins 2005 að þeir vilja leggja skatt á fjármagn og fé, bæði fjármagn og sauðfé. Það fer nú venjulega undan veðri og vindum og ef það er skattpínt of mikið þá fer það eitthvað annað, fer úr landi. (Gripið fram í: Sauðféð?) Eins og hv. þm. Pétur Blöndal rakti áðan, þá margfölduðust tekjurnar þegar skattprósentan var lækkuð.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill líka hækka tekjuskatt. Þeir vilja hækka tekjuskatt. Hvað þýðir það? Það er vinnuletjandi og meiri skattsvik og því fylgja meiri skattsvik. (ÖJ: Erum við með tillögur um það?) Hvað með hátekjuskattinn, viljið þið ekki halda í hann? Það er í tillögum fyrir árið 2005, á fjárlögunum, stendur hér. Það er talað um að lækka hana. (Gripið fram í.) Þið eruð á móti stóriðju og þeim tekjum sem af henni koma og allri vinnu í nútíð og framtíð vegna þess arna. (ÖJ: Þar er bókhaldslegt tap.) Þetta er mjög alvarlegt.

Síðan eru hér strákar og stelpur sem vilja vera með okkur stjórnarliðunum en komast ekki inn í hópinn. Þau vita ekki hvar þau eiga vera. Þeir eru með eða á móti, (Gripið fram í.) og vita ekki hvar þau eru enda er það þannig að þjóðin tekur ekki orðið mark á þessu. Hver er stefna þessa flokks? Hún er engin. Hún er út og suður. Einn daginn vilja þeir tekjutengdan eignarskatt en þann næsta vilja þeir hann ekki. Hvað halda menn að þeir vilji á morgun? Vilja þeir afnema hann? (Gripið fram í: Það veit enginn.) Það veit enginn.