131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:29]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta líka farið yfir í sjávarútvegsmál (Gripið fram í: Þetta er bara grundvöllurinn.) vegna þess að auðvitað ber að ræða þau. Hluti af því sem ég nefndi áðan snýr að sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn um allt land borgar eignarskattana sem eru miklu lægri en eignarskattar sem fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu greiða. Það er hluti af því sem ég fjallaði um áðan að eignarskattarnir sem fyrirtækin greiða koma svona niður þannig að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu fá miklar upphæðir í eignarskattslækkun meðan sjávarútvegsfyrirtækin á landsbyggðinni fá lítið sem ekki neitt. Það eru auðvitað sjávarútvegsfyrirtækin sem borga þessa litlu eignarskatta úti á landi.

Afæturnar, ef svo má að orði komast, á höfuðborgarsvæðinu eru stóru fyrirtækin sem fá mikla peninga frá sjávarútveginum og fá mikið í eignarskattslækkun.