131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:32]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðuna en ég mótmæli því sem hér hefur komið fram að eingöngu sé hægt að hafa þrjár skoðanir á málum. Það liggur alveg fyrir að þegar Samfylkingin er annars vegar þá er hægt að hafa miklu fleiri skoðanir en einungis þrjár, og ég tala nú ekki um þegar símastrákurinn kemst í málin hjá þeim, það er vel þekkt.

Ég vek athygli á að skýrt kom fram hjá hv. þingmanni, sem talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar, að Samfylkingin er á móti afnámi eignarskatts vegna þess að það kemur Reykvíkingum og fólki á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega vel. Það kom algjörlega skýrt fram að það er ástæðan fyrir því að Samfylkingin er á móti afnámi eignarskatts, og ég þakka fyrir að það skyldi vera upplýst hér.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Kristján L. Möller um þetta: Fyrir kosningar talaði hann sem og aðrir frambjóðendur Samfylkingarinnar um jaðarskatta, það ætti að lækka jaðarskatta. Hvað varð um það?