131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:35]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann því illa þegar þingmenn koma og tala á jafn gáleysislegan hátt og hér var gert. Hv. þingmaður sagði að það kæmi betur út fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni að borga lága eignarskatta. (Gripið fram í: Nei, ég sagði það ekki.) Auðvitað kemur það betur út en hvers vegna er greiddur lægri eignarskattur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni?

Að tala með slíkum hroka og tala þannig niður til atvinnureksturs á landsbyggðinni eins og hér var gert (Gripið fram í.) er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti. (Gripið fram í: … jaðarskattana.) Ég get vonandi komist að jaðarsköttunum, virðulegi forseti. En mér þykir betra, virðulegi forseti, að ræða um þetta niðurtal, ef svo má að orði komast, til fyrirtækjareksturs á landsbyggðinni, eins og hv. þm. sagði: Það kemur betur út fyrir fyrirtæki að greiða lága eignarskatta á landsbyggðinni. Auðvitað kemur það betur út að greiða sem minnst, en hver er grunnurinn að því að lítið er borgað?