131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:38]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim þingmanni sem hér stendur. Hann þarf miklu frekar að hafa áhyggjur af sjálfum sér vegna þess að hann styður ríkisstjórn sem um þessar mundir gengur milli hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu eins og Hjálpræðisherinn með betlibauk að safna saman peningum í skattahækkunum. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ásamt fleiri ungum mönnum Sjálfstæðisflokksins sem skolaði inn á Alþingi vegna loforða um skattalækkanir, hafa verið blóðugir upp fyrir axlir undanfarna daga að hækka skatta, virðulegi forseti.

Það er enginn vandi að lækka skatta eða greiða til baka þegar búið er að fara um allan akurinn nokkrum dögum fyrr og hirða allt sem þar er, hækka skatta, eins og hv. þingmaður hefur verið að gera undanfarna daga.