131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að það er staddur læknir í salnum vegna þess að reiði hv. þingmanns er slík að halda mætti að hann þyrfti á læknishjálp að halda (Gripið fram í.) — já, hv. þm. Katrín Fjeldsted — vegna þess að við erum að lækka skattana á fólkinu í landinu.

Ég spurði hv. þingmann, sem kom sér ekki í að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann, líklega af æsingi, hann er svo brjálaður yfir því að ríkisstjórnin sé að lækka skattana. Ég spurði hann fjögurra spurninga og get ég vinsamlegast fengið svör við þeim?

Spurningarnar voru þessar: Er hv. þingmaður á móti því að tekjuskattur einstaklinga sé lækkaður um 4%? Er hann á móti afnámi eignarskattsins? Er hann á móti því að við hækkum barnabætur um 2.400 milljónir? Og hvað varð um jaðarskattastefnu Samfylkingarinnar sem boðuð var fyrir síðustu kosningar?