131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:42]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að höggva í sama knérunn og gert hefur verið í fyrri andsvörum því það er ljóst að ekki fást svör við spurningum sem komið hafa fram þar.

Ég er hins vegar með eina spurningu í tilefni af því að hv. þingmaður vék að því í ræðu sinni að frítekjumarkið þyrfti að hækka og að óréttmæti skattastefnu stjórnarflokkanna birtist m.a. í því að persónuafslátturinn hefði ekki fylgt verðlagi, í það minnsta hefði hann verið að rýrna að verðgildi undanfarin ár. Ég spyr þingmanninn þess vegna: Getur hann bent mér á eitthvert land í heiminum þar sem frítekjumarkið er hærra en á Íslandi?