131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:19]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefði verið spennandi umræða í tengslum við málið, þ.e. hvenær eigi að láta skattalækkanirnar taka gildi. Það er skýrt að í því tilliti horfa stjórnarflokkarnir á horfur í efnahagsmálum og á það hvenær þunginn af stóriðjuframkvæmdum kemur inn í hagkerfið. Fyrir því eru einfaldlega hagfræðileg rök. Útgjöldum eða eftirgjöf á tekjum er ekki slegið á frest bara svona af því bara eða vegna þess að menn ætli að nota peningana í eitthvað annað á næsta ári. Það er ekki eins og menn hafi ekki efni á því að lækka skattana á næsta á ári.

Það er 10 milljarða kr. afgangur á þeim fjárlögum sem nýverið voru samþykkt. Það er sérstök ákvörðun sem byggist á hagfræðilegum rökum að láta áhrif skattalækkananna ekki koma fram fyrr en síðar á kjörtímabilinu.