131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:24]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um að það frumvarp sem við ræðum hér um er skattalækkunarfrumvarp. (Gripið fram í: Jæja, gott og vel.) Á hinn bóginn höfum við bent á að önnur frumvörp gera það að verkum að skattar hækka umfram þær lækkanir sem hér liggja fyrir. Á það hefur einfaldlega verið bent.

Hv. þingmaður fór mikinn og talaði hátt og lengi um málið. Hann taldi að hvergi í heiminum fyndist land þar sem menn fengju meira úr fyrsta hundraðþúsundkallinum en á Íslandi. Mig langaði aðeins til að benda hv. þingmanni á nokkuð og vænti þess að hann fylgist með. Hv. þingmaður, ég ætla að benda þér á sex lönd í Evrópu þar sem meira fæst af fyrsta hundraðþúsundkallinum. Þar mætti nefna Bretland, Belgíu, Holland, Danmörku, Frakkland og Írland. (Forseti hringir.) Launþegar fá í þeim löndum meira út úr fyrsta hundraðþúsundkallinum en á Íslandi, af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um það í ræðu sinni.