131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:27]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki vera hlutverk mitt að þurfa sífellt að leiðrétta hv. þingmann en skattprósentan af fyrsta hundraðþúsundkallinum er reyndar 11,5% á Íslandi en ekki 3,5%. Það liggur klárt fyrir.

Hv. þingmaður fór mikinn áðan og taldi það endurspegla félagsleg viðhorf ríkisstjórnarinnar að hvergi á byggðu bóli eða í veröldinni fengju menn meira út úr fyrsta hundraðþúsundkallinum en á Íslandi. Ég benti aðeins á nokkur lönd í Evrópu. Ég er ekki sérfræðingur í hvernig sú staða er í Afríku. Ég er ekki fróður um stöðu þeirra mála í Suður-Ameríku en sjálfsagt mætti finna miklu fleiri lönd en þessi sex.

Umræðan hér hefur ekki snúist um hvort frumvarpið sem um ræðir sé skattalækkunarfrumvarp eða ekki. Við höfum aðeins dregið það fram að önnur frumvörp gera það að verkum að skattahækkanir eru mun meiri og færast á útgjöld heimilanna, (Forseti hringir.) frá breiðu bökunum yfir á þá sem minna mega sín, úr skattkerfinu yfir í notendagjöld og (Forseti hringir.) kostnaðargjöld, gjöld í heilsugæslu o.s.frv. (Forseti hringir.) Um það hefur umræðan snúist.