131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:28]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær tölur sem ég rakti hef ég haft úr vefriti fjármálaráðuneytisins frá 2. desember. Þar segir að tekjuskattshlutfallið verði árið 2007 3,5% fyrir þann sem hefur 100 þús. kr. í mánaðarlaun, eftir að ákvæði þess frumvarps sem hér að er verið að ræða hafa tekið gildi. (Gripið fram í: Árið 2010?) Árið 2007.

Í tengslum við umræðuna um gjaldahækkanir ætla ég að ítreka það sem ég hef áður sagt. Með því að færa opinberar álögur á vörur og þjónustu í humátt á eftir verðlaginu ætlar ríkið að taka til sín viðlíka hlutfall af verðmæti vöru eða þjónustu og gilt hefur hingað til. Þau gjöld eru færð til samræmis við verðlagsþróun.