131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:31]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um tvennt að ræða. Annars vegar er frítekjumarkið. Ef við skoðum aðeins hvernig það hefur þróast frá árinu 1988 þá var það einmitt í tíð vinstri flokkanna, í stjórnartíð þeirra, sem frítekjumarkið hrundi. Frá árinu 1988 lækkaði það, (Gripið fram í: Nei, nei.) á verðlagi ársins í ár, úr 100 þús. kr. niður í rétt rúmar 90 þús. kr. Á árinu 1990 var það innan við 90 þús. kr. (HHj: Vill ekki þingmaðurinn svara spurningunni?) Það lækkaði um meira en 10% á tveimur árum. (HHj: Vill ekki þingmaðurinn svara spurningunni?) Frá því hefur það haldist nokkuð stöðugt á verðlagi ársins í ár, þegar tekið hefur verið tillit til séreignarsparnaðar. Það hefur farið vaxandi undanfarin ár í þessu tilliti.